Birna Baldursdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 26. júní 1933. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 21. júní 2025.
Foreldrar Birnu voru Baldur Ólafsson útibússtjóri og Jóhanna Ágústsdóttir húsmóðir. Þau voru búsett í Vestmannaeyjum. Systkini Birnu eru Guðrún Ágústa Óskarsdóttir, f. 5. maí 1929, nú látin, Haraldur Baldursson, f. 25. febrúar 1932, og Lilja Hanna Baldursdóttir, f. 24. júlí 1944.
Eiginmaður Birnu var Svavar Davíðsson forstjóri, f. 5. júlí 1936, d. 18. júní 2011. Þau giftust árið 1957 og hófu búskap í Mávahlíð 33 í Reykjavík en fluttu árið 1964 í Aratún 23 í Garðabæ. Eftir andlát Svavars flutti hún í Hofakur 5 í Garðabæ. Börn Birnu og Svavars eru 1) Baldur Ólafur, f. 12. mars 1957, sambýliskona hans er Kristín E. Guðjónsdóttir. Börn hans og Eyrúnar Gunnarsdóttur eru a) Davíð Arnar, sambýliskona hans er Jenný Ómarsdóttir. b) Brynjar Darri, eiginkona hans er Heiðdís Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Bjartey og Breki. 2) Nína Björk, f. 16. desember 1959. Börn hennar og Ólafs Hauks Gíslasonar eru a) Birna Björk, sambýlismaður hennar er Gunnlaugur Jónasson, börn þeirra eru Alexander Már og Guðrún Eyja. b) Svavar Már, eiginkona hans er Þórunn Þórsdóttir, börn þeirra eru Eyþór og Yrja. c) Sandra Björk Nínudóttir, sambýlismaður hennar er Einar Valentine, sonur þeirra er Einar Guðni. Dætur Söndru Bjarkar og Sindra Kristinssonar eru Nína Margrét og Saga Björk. 3) Bryndís Björk, f. 23. október 1970, sambýlismaður hennar er Magnús Kristinsson. Börn hennar og Stefáns Magnússonar eru a) Dagur Snær, sambýliskona hans er Ylva Ragnarsdóttir, sonur þeirra er Henrik Darri. b) Stefán Orri, unnusta hans er Luciana Marie Fernandez Gomez. c) Embla Björk.
Birna var fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún fór ung í verslunarskóla í Bergen í Noregi og vann þar við skrifstofustörf. Hún vann lengi hjá Útvegsbanka Íslands í Reykjavík. Síðar vann hún við fyrirtæki þeirra hjóna, Klif hf. Birna rak um tíma barnafataverslunina Fiðrildið. Samhliða fyrrgreindum störfum sinnti hún heimilisstörfum og fjölmörgum áhugamálum sínum, svo sem bútasaum, handavinnu og matargerð.
Útför hennar fer fram frá Garðakirkju í Garðabæ í dag, 30. júní 2025, klukkan 15.
Streymt verður frá jarðarförinni.
Það er ekki sjálfgefið að eiga góða mömmu og er það okkur þungbært að kveðja hana nú.
Mamma fæddist í Eyjum þann 26. júní árið 1933. Hún ólst upp í faðmi dásamlegrar fjölskyldu, ömmu Jóhönnu og afa Baldurs. Hún átti þrjú systkini, þau Dengsa, Lillu og Lilju Hönnu. Hún talaði oft um hvað æskan í Eyjum hefði verið góð. Fjölskyldan var samheldin og mamma var alltaf vel tengd við Eyjarnar, ræktaði frændgarðinn og þótti vænt um uppeldisstöðvarnar.
Þegar mamma og pabbi byrjuðu að rugla saman reytum þá flutti mamma upp á land. Þau bjuggu fyrst um sinn í Mávahlíðinni í Reykjavík en fluttu seinna í Aratúnið. Mamma bjó þar þangað til pabbi lést en flutti þá í Hofakur í Garðabæ en þar bjó hún og sá um sig sjálf fram á síðasta dag.
Mamma var skemmtileg og lífsglöð kona. Hún hafði góðan og svartan húmor, hafði ákveðnar skoðanir sem hún lá ekki á. Hún var okkur einstök mamma, gaf góð ráð sem reyndust alltaf vel. Barnabörnin voru dugleg að heimsækja hana og pabba í Aratúnið og fóru oft til þeirra til að spjalla og brasa með afa í garðinum. Þau eru þeim einstaklega eftirminnileg.
Mamma hafði gaman af handavinnu og saumaði bútasaumsteppi sem þykja mikil listaverk, svo prjónaði hún og heklaði af miklum móð. Hún var nýjungagjörn í matargerð og fantagóður kokkur. Mamma var sjálfstæð og á undan sinni samtíð á margan hátt. Hún flutti ung til Bergen í Noregi og starfaði þar. Það var ekki algengt á þeim tíma. Hún hvatti okkur til að mennta okkur og við fengum þau skilaboð að mennt væri máttur. Mamma var mjög tæknivædd. Hún átti tölvuvæddar saumavélar sem hún kunni vel á og þær voru ófáar konurnar, margar töluvert yngri en hún, sem komu í heimsókn til hennar til að læra á þær. Hún var á Facebook, notaði tölvuna til að kaupa sér föt og lesefni á vefnum og heimabankinn vafðist ekki fyrir henni.
Mamma og pabbi voru samhent og áttu fjölmörg áhugamál. Þau stunduðu skíðaíþróttina af kappi, bæði hér heima og á erlendri grundu. Þau fóru mikið til útlanda á skíði þegar slíkar ferðir voru ekki orðnar algengar. Þá var flogið til Lúxemborgar og svo keyrt til Austurríkis og stóðu þessar ferðir oft í tvær vikur. Pabbi var mikill veiðimaður og ferðuðumst við vítt og breitt um landið og veiddum í ám og vötnum. Við eigum margar góðar minningar úr þeim ferðum. Sérstaklega eru ferðirnar í Haganes í Mývatnssveit okkur kærar. Ófáar voru stundirnar í sumarbústaðnum, Baldurshaga, þar sem allir söfnuðust saman og áttu gæðastundir.
Við gætum haldið endalaust áfram að rifja upp minningar um mömmu. Hún var einstök og eftirminnileg kona með fallegt hjarta, fyrir það erum við ævinlega þakklát.
Við kveðjum mömmu með sorg, söknuði og miklu þakklæti. Nú er hún komin til pabba, ömmu, afa og Lillu systur sinnar. Þar verður fjör ef við þekkjum okkar fólk rétt. Við ætlum að lifa í hennar anda þangað til við förum í partíið til þeirra.
Baldur, Nína og Bryndís.
Það er erfitt að setja í orð hversu mikil áhrif amma hafði á líf okkar og allra sem hana þekktu. Hún var alveg einstök og lifði lífi sínu eins og hún vildi hafa það, með bros á vör og það lá aldrei illa á henni. Í hvert skipti sem við komum í Aratúnið tók hún á móti okkur með ristað brauð og kakó og með hlýju nærverunni sinni. Hún sat með okkur og spjallaði, grínaðist og passaði vel upp á að okkur leiddist ekki enda vorum við tíðir gestir hjá ömmu og afa. Amma hafði einstakt lag á að láta mann hlæja með svarta og skemmtilega húmornum sínum. Hún átti líka létt með að láta mann heyra það þegar það átti við. Lífið verður aldrei eins án ömmu okkar og við syrgjum hana, en mikið vorum við heppin að fá að eiga svona góða ömmu og við fögnum því að eiga svo margar frábærar sögur af henni.
Blessuð sé minning ömmu Birnu. Við munum aldrei gleyma henni. Hvíldu í friði elsku amma.
Dagur Snær, Stefán Orri og Embla Björk.
Elsku amma Birna.
Eins sárt og það er að hugsa til þess að við munum ekki fá að njóta nærveru þinnar lengur og heyra hlátur þinn aftur, þá erum við afar lánsöm að geta yljað okkur við ótal minningar um þig og tíma okkar saman. Við pössum upp á að skrifa í anda ömmu Birnu, henni var ekkert sérstaklega gefið um væmni. Amma Birna var sko engin venjuleg amma; lífskúnstner, hrókur alls fagnaðar, ferðaglöð, mikill fagurkeri og landsþekkt fyrir bútasaumaskap. Þegar við systkinin horfum til baka standa upp úr allar gleðistundirnar í Aratúninu. Aratúnið var heimilið sem hélt allri fjölskyldunni saman og var samkomustaður okkar allra. Dyrnar voru alltaf opnar, hvort sem það var eftir skóla eða þegar halda átti upp á mikilvæga áfanga í lífi okkar allra í fjölskyldunni. Stúdentsveislur, skírnarveislur, stórafmæli, þetta voru allt viðburðir sem áttu sér stað í Aratúninu og það var amma Birna sem sá um að veislurnar væru óaðfinnanlegar enda veislustjóri af guðs náð. Amma Birna var ávallt miðpunkturinn í öllum veislum og hún hélt allaf bestu ræðurnar enda afar orðheppin kona. Amma Birna bjó yfir þeim hæfileika að skapa bestu hefðirnar og má þar helst nefna jólaboðin og áramótaveislurnar í Aratúninu. Hvert ár stóð amma fyrir jólaboði sem sögur fara af. Þessar hefðir skapaði hún til að geta samglaðst þeim sem hún elskaði heitast, nefnilega börnunum og barnabörnunum. Baldurshaginn á sérstakan stað í hjörtum okkar og þetta var enn einn staðurinn sem amma skapaði fyrir fólkið sitt til að njóta lífsins saman. Amma var alltaf svo góð í að búa til fjölskylduhefðir og það voru margar stundirnar sem sköpuðust í Baldurshaganum. Amma Birna kunni svo sannarlega að lífa lífinu með afa Svavar sér við hlið. Amma og afi nutu þess að ferðast og leyfðu þau börnum sínum og barnabörnum oft að ferðast með. Ferðirnar sem standa upp úr eru allar skíðaferðirnar til Austurríkis sem einkenndust af miklum skemmtilegheitum og var ekki síður mikilvægt að njóta í mat og drykk. Það var nefnilega þannig að glühwein og jagertee smakkaðist einstaklega vel í Ölpunum og stundum var dálítið erfitt að skíða niður síðustu brekkurnar en fyndið var það fyrir okkur barnabörnin. Það er ekki hægt að minnast ömmu Birnu án þess að skrifa um bútasauminn. Það var nefnilega þannig að amma var mikil listakona og bútasaumurinn var stór hluti af lífi hennar. Þegar maður kom í heimsókn sat hún iðulega við saumavélina þar sem hún bjó til hvert meistaraverkið af öðru og verkin hennar hafa prýtt mörg heimilin. Hún var það iðin við bútasauminn að hún hélt sýningar enda voru verkin hennar ansi mörg og falleg. Amma hélt áfram að lifa lífinu eftir að afi Svavar dó langt fyrir aldur fram og það er lýsandi fyrir hana. Elsku amma Birna, það er komið að leiðarlokum, mikið ofboðslega sem það er sárt að fá ekki að halda í hönd þína lengur þá vitum við að nú er afi glaður og nú ertu loksins komin í fang hans. Minning þín mun lifa að eilífu, þú ert og munt alltaf vera stór hluti af okkur.
Við elskum þig amma,
Birna, Svavar og Sandra.
Elsku besta amma Birna.
Mikið sem heimurinn virkar þögull án þín. Við bræðurnir kveðjum þig með gífurlega miklum söknuði en á sama tíma fullir þakklætis fyrir allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman. Öll hlátursköstin, öll matarboðin, allar sumarbústaðaferðirnar, öll jólin og allar skíðaferðirnar. Mest erum við þó þakklátir fyrir alla umhyggjuna sem geislaði frá þér, alveg sama á hverju stóð.
Það er okkur minnisstætt að renna í hlað í Aratúninu þar sem Benzinn með hinu víðfræga einkanúmeri lá og lætin í saumavélinni heyrðust út á götu. Það var alltaf tekið úr lás og mikill fögnuður brast út þegar við opnuðum dyrnar. Stundum var reyndar ekki kveikt á heyrnartækjunum svo að ömmu hvellbrá þegar við birtumst langt inni á svefnherbergisgólfi – sem okkur þótti ekki leiðinlegt! Undantekningalaust lá leiðin svo inn í eldhús, þar sem amma galdraði fram eitthvað gott eins og henni einni var lagið. Hún var nefnilega ekki bara listakona á saumavélinni heldur líka mikill listakokkur. Hvort sem það kom að því að matreiða læri, sultur, salöt, sósur eða kökur sló það alltaf í gegn.
Amma var líka mikil félagsvera og vildi yfirleitt hafa sem flesta í kringum sig, segja sögur, spyrja spurninga og hlæja. Hún var með svartan húmor, hreinskilin og ófeimin við að segja sínar skoðanir. Þegar þessu öllu er blandað saman áttu sér stað kostuleg samtöl sem oftar en ekki enduðu með gleðitárum. Stundum spratt samt fram smá sviti vegna skoðana sem var svo sannarlega ekki búið að sykurhúða!
Allir þessir eiginleikar mótuðu mjög sjálfstæða, ákveðna og skemmtilega konu sem hún amma var. Algjörlega einstök. Þú varst, ert og munt alltaf vera okkur mikil fyrirmynd. Hvíldu í friði.
Davíð og Darri.
Óvænt er nú komið að kveðjustund, en hún elsku systir mín kvaddi þetta líf laugardaginn 21. júní sl.
Hugurinn leitar til baka með yndislegum minningum. Við áttum góð og skemmtileg ár í Vestmannaeyjum á okkar barns- og unglingsárum. Fyrst bjuggum við á Borg en síðar á Ásavegi 5 í stærra húsnæði og Lilla systir (Guðrún Ágústa) flutti til okkar og einnig amma Lilja.
Lífið gekk sinn vanagang, eftir barnskólann tók við gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum og Birna fór snemma að spila handbolta með Þór og var alltaf mikill Þórsari. Fór til dvalar í Noregi um tíma og naut lífsins þar. Kom svo aftur til Íslands og fór að vinna í Útvegsbankanum um tíma. Svo kom að því að hún hitti verðandi eiginmann sinn, Svavar Davíðsson, og við tók búskapur og barneignir, Baldur, Nína og Bryndís, og fljótlega settust þau að í Garðabænum, Aratúni 23. Þekki ég fáa sem eru meiri Garðbæingar en þessi ágæta fjölskylda og þar bjuggu þau þar til Svavar féll frá. Þau ráku fyrirtæki sitt, Klif hf., í áraraðir við góðan orðstír þangað til hann lést 2011.
Við þau tímamót í lífi systur minnar sýndi hún hve sjálfstæð og ákveðin kona hún var, því á skömmum tíma hafði hún selt húsið, fyrirtækið og bílinn og komið sér upp nýju heimili, í Garðbænum auðvitað, og fengið sér nýjan bíl og lífið hélt áfram. Hún var mjög listræn, saumaði mikið og hennar mesta áhugamál var bútasaumur í mörg ár og sótti hún margar bútasaumskynningar erlendis og hér heima og leiðbeindi mörgum öðrum og eigum við hjónin marga fallega hluti eftir hana sem munu ávallt minna á hennar hæfileika. Þegar Birna varð 80 ára hélt hún veglega sýningu á verkum sínum við góðan orðstír.
Að lokum viljum við Gyða mín og fjölskyldur okkar senda börnum Birnu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Megi góður Guð taka þér opnum örmum og blessa þig kæra systir.
Haraldur Baldursson.