Sigur Trump var kampakátur með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á laugardag en réðist af hörku á þá samflokksmenn sína sem sviku lit.
Sigur Trump var kampakátur með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á laugardag en réðist af hörku á þá samflokksmenn sína sem sviku lit. — AFP/Remko de Waal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil spenna var í loftinu hjá efri deild bandaríska þingsins á laugardag þegar þingmenn samþykktu með 51 atkvæði gegn 49 að taka risavaxið efnahagsfrumvarp Donalds Trumps til umræðu. Frumvarpið er engin smásmíði, eða um 940 blaðsíður að lengd, og…

Baksvið

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Mikil spenna var í loftinu hjá efri deild bandaríska þingsins á laugardag þegar þingmenn samþykktu með 51 atkvæði gegn 49 að taka risavaxið efnahagsfrumvarp Donalds Trumps til umræðu.

Frumvarpið er engin smásmíði, eða um 940 blaðsíður að lengd, og gengur undir nafninu „stóra og fallega frumvarpið“ (e. Big Beautiful Bill). Í meginatriðum miðar frumvarpið að því að raungera mörg helstu stefnumál Trumps og m.a. létta skattbyrði fólks og fyrirtækja.

Í sinni núverandi mynd kveður frumvarpið m.a. á um lægri skatta á lífeyrisgreiðslur, rýmri heimildir til að draga greiðslu staðbundinna skatta frá skattgreiðslum til alríkisins, og niðurfellingu skatta á þjórfé og yfirvinnukaup.

Frumvarpið felur líka í sér minni ríkisstuðning við orkuskipti og sjálfbæra orkuframleiðslu, en þess í stað verður hægt að draga frá sköttum vexti af bílalánum vegna kaupa á bifreiðum sem smíðaðar hafa verið í Bandaríkjunum. Frumvarpið heimilar bandarískum stjórnvöldum jafnframt að auka skuldir ríkissjóðs um 5.000 milljarða dala.

Gagnrýnendur frumvarpsins hafa einkum bent á að það dragi úr félagslegum stuðningi við einstaklinga sem eru barnlausir og vinnufærir. Myndi fólk í þessum hópi þurfa að vinna að lágmarki 80 klukkustundir í mánuði til að eiga rétt á opinberri sjúkratryggingavernd og styrkjum til matarkaupa.

Þá myndi frumvarpið, ef það verður að lögum, framlengja skattalækkanir sem komið var á í valdatíð Trumps árið 2017.

Frumvarpið tryggir einnig að hernaðarmál, landamæramál og innflytjendamál fái nægileg fjárframlög til að framfylgja stefnu forsetans.

Tveir þingmenn úr röðum Repúblikana sviku lit og greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en heimildir greina frá að bæði leiðtogar Repúblikanaflokksins og JD Vance varaforseti hafi þurft að hafa mikið fyrir því að fá suma samflokksmenn sína til að styðja frumvarpið, með góðu eða illu.

Frjálshyggjumaðurinn Rand Paul frá Kentucky greiddi atkvæði gegn frumvarpinu enda er hann mikill andstæðingur ríkisútgjalda og skuldasöfnunar. Thom Tillis, þingmaður Repúblikana frá Norður-Karolínu, greiddi einnig atkvæði gegn frumvarpinu en hann óttast að skerðing félagslegra réttinda muni bitna harkalega á fátækari íbúum ríkis síns. Trump brást við með því að segjast ætla að nota komandi vikur til að funda með fólki sem gæti hugsað sér að bjóða sig fram gegn Tillis á næsta ári.

Tillis brást við árás forsetans með því að tilkynna að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri á komandi ári. Kvaðst hann frekar vilja vera með konu sinni og ástvinum en að taka þátt í bandarískri pólitík enn eitt kjörtímabilið.

Repúblikanar vonast til að geta afgreitt frumvarpið úr efri deildinni með hraði svo að forsetinn geti samþykkt nýju lögin með undirskrift sinni eigi síðar en á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna þann 4. júlí.

Musk verulega óhress

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið hvað harðast er milljarðamæringurinn Elon Musk, sem var einn nánasti bandamaður Trumps þar til kastaðist í kekki á milli þeirra fyrr í sumar.

Í færslu sem hann birti á samfélagsmiðli sínum X (áður Twitter) sagði Musk að frumvarpið væri „algjörlega snargalið og eyðileggjandi“. Musk sagði jafnframt að í sinni núverandi mynd væri frumvarpið að „styðja við atvinnugreinar fortíðarinnar en skaða atvinnugreinar framtíðarinnar“ og að milljónir bandarískra starfa væru í húfi.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson