Ísbjörg Ísleifsdóttir fæddist 14. apríl 1929 í Miðkoti í Fljótshlíð. Hún lést 15. júní 2025 á bráðamóttöku LSH eftir stutt veikindi.

Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 1891, d. 1970, og Ísleifur Sveinsson trésmiður, f. 1900, d. 1981. Ísbjörg var næstyngst sex systkina. Elst var Kristbjörg Lilja Árnadóttir, f. 1914, d. 1985, Sveinn, f. 1923, d. 1989, Margrét Jóna, f. 1924, d. 2021, Bóel, f. 1926, d. 2021, Kristín, f. 1927 d. 2010, og Guðrún, f. 1930.

Ísbjörg giftist Henrik Vilhelm Árnasyni Aunio, f. 1926, d. 2013, hinn 6. júní 1959 en þau skildu 1987. Dætur þeirra eru 1) Anna, f. 1961, gift Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, f. 1952, synir þeirra eru a) Oddur, f. 1987, b) Hinrik, f. 1989, áður kvæntur Lillian Denice Fisher, f. 1986, barn þeirra er Gígja Eldey, f. 2014, fyrir átti Vilhjálmur son, Sigurjón, f. 1977, 2) Ardís, f. 1963, gift Ásgeiri Ásgeirssyni, f. 1960, synir þeirra eru a) Anton Vilhelm, f. 1987, b) Alexander Jens, f. 1994, c) Ásgeir Atli, f. 1997, 3) Asta, f. 1964, gift Finni Magnússyni, f. 1971, synir þeirra eru a) Magnús Henrik, f. 1998, b) Finnur Hugi, f. 2004.

Ísbjörg flutti með foreldrum sínum á Hvolsveg 16 á Hvolsvelli tólf ára gömul. Frá 12 ára aldri vann hún ýmis störf, svo sem við barnapössun og matreiðslu fyrir vinnumenn við brúarsmíði. Til Reykjavíkur fór hún 15 ára í vist og hafði plön um að verða ljósmóðir. Búið var að festa henni pláss í námi í Noregi en ekkert varð úr þeim áformum. Ísbjörg og Henrik kynntust í Kron, hún verslunarmær og hann útstillingarmaður. Eftir Evrópureisu settust þau að í Svíþjóð árið 1955 og þar fæddist elsta dóttir þeirra, þau komu alflutt til Íslands í lok 1961. Ísbjörg var heimavinnandi húsmóðir á meðan dæturnar voru litlar en fór út á vinnumarkaðinn árið 1976. Hún vann hjá Póstinum í mörg ár, síðar við verslunarstörf og að lokum sem ráðskona í Múlabæ frá 1983 þar til starfsævi lauk. Eftir starfslok naut Ísbjörg sín í ömmuhlutverkinu. Ísbjörg var heilsuhraust lengst af og bjó ein í íbúð sinni í Gyðufelli í tæp 40 ár.

Útför Ísbjargar fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 30. júní 2025, klukkan 15.

Þegar við kveðjum móðursystur okkar Ísbjörgu hvarflar hugurinn til forfeðra okkar. Móðurforeldrar okkar, Ísleifur og Ingibjörg, hófu sinn búskap í Miðkoti í Fljótshlíð upp úr 1920. Þá við nánast engin veraldleg efni en þessi meiri dugnað og nægjusemi. Afi var listasmiður og amma með sína fimu fingur sem prýddu hverja flík. Hún kunni sannarlega að venda, bæta, prjóna og sauma og þau nýttu alla hluti vel. Í þessu umhverfi ólst Ísbjörg upp, næstyngst sjö systkina. Börnin fæddust ört og var haft eftir prestinum að ýmist væri verið að skíra eða ferma í Miðkoti. Það var líka haft á orði í Fljótshlíðinni ef einhver var virkilega dapur að nú þyrfti hann að komast að Miðkoti til að hressa upp á sálina. Þá gleði sem þar bjó erfði Ísbjörg í ríkum mæli. Hún fékk nafn beggja foreldra sinna og hefur trúlega átt verða örverpið þótt annað kæmi síðar í ljós, því Guðrún (Gunna) yngsta systirin fæddist ári síðar og er nú ein eftir af hópnum frá Miðkoti, 94 ára gömul. Yngstu systurnar fylgdust lengi að því þær fluttu ungar suður til Reykjavíkur til að freista gæfunnar. Við munum eftir fallegum jólagjöfum frá þeim systrum í borginni. Ísbjörg tók í arf frá foreldrum sínum þeirra góðu kosti. Hún hafði einstaklega góða lund, var gjafmild og úrræðagóð og gerði allt fallegt í kringum sig þar sem hún bjó. Hún var gestrisin með afbrigðum og var því alltaf gott að koma til hennar.

Ísbjörg var skilningsrík og umhyggjusöm og kvartaði aldrei. Síðasta starf hennar var í öldrunarþjónustu í Múlabæ. Þar naut hún sín og þjónaði af kærleika enda elskuðu skjólstæðingarnir hana og virtu.

Stóra ástin beið hennar í kjörbúð Kron þar sem hún starfaði sem ung kona. Þar birtist finnskur listamaður, Henrik Anio. Hann kom með þá nýjung til landsins að stilla upp í verslunum, hann var listamaður, ljósmyndari og það sem nú heitir uppstillingahönnuður. Ísbjörg aðstoðaði hann við starfið og þau hrifust hvort af öðru. Tungumálaerfiðleikar urðu þeim ekki til trafala. Við munum eftir því þegar þau komu á glænýjum Citroën-bíl á Hvolsvöll. Slík glæsikerra og undratæki hafði ekki sést fyrr í sveitinni. Með Henrik átti Ísbjörg sínar þrjár yndislegu dætur sem hafa verið henni gleði og stoð í lífinu og barnabörnin urðu sömuleiðis ljós í lífi hennar. Okkur systkinunum þótti mikið til koma hversu framandi lífi þau hjónin lifðu, því um árabil bjuggu þau erlendis og komu með ýmsa nýja siði til landsins. Kúlutjaldið er eftirminnilegt og sólskinsstundir voru nýttar til sólbaða. Jólakortin með myndum af fjölskyldunni voru nýlunda sem við höfðum ekki áður séð.

Ísbjörg líktist móður okkar bæði í sjón og raun og lifði sjálfstæð og frjáls í 96 ár eins móðir okkar. Við systkinin kveðjum frænku okkar með kærleika og söknuði. Við sendum fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu góðrar konu.

Guðríður Björk, Ingibjörg og Ísólfur Gylfi.

Í dag kveðjum við elsku móðursystur mína og eina af hetjum æsku minnar. Ísbjörg var fædd í Miðkoti í Fljótshlíð og ólst þar upp með sínum góðu foreldrum og systkinum, þeim Lilju, Sveini, Margréti, Kristínu, Bóel og Guðrúnu sem ein lifir systur sína. Þar voru einnig til heimilis Margrét amma þeirra og hennar vinkona Kristín, ásamt fleira fólki sem þar átti oft athvarf. Þarna hefur örugglega verið mikið fjör og allir duglegir við að aðstoða við bústörf og annað sem mannmargt heimili þurfti til að allt gengi upp. Systkinin frá Miðkoti voru gæfufólk sem lét sér annt um velferð annarra og sýndu það í sínu lífi. Alltaf var gott til þeirra að koma og hjartalagið á þann veg að flestir fóru betri en þeir komu.

Ísbjörg frænka mín var mikil uppáhaldsfrænka mín og ég var svo heppin sem smástelpa að kynnast henni og hennar fólki þegar hún fluttist heim frá Svíþjóð með manni sínum Henrik Aunio og Önnu dóttur þeirra. Á Íslandi komu svo dæturnar Ardís og Asta. Þarna var línan lögð og systurnar Sigga og Inga urðu barnapíur fjölskyldunnar. Það var ekki leiðinlegt að labba eftir Laufásveginum og stoppa við húsið nr. 54 þar sem Fritz Weisshappel píanóleikari bjó á neðri hæðinni og Ísbjörg með sinni fjölskyldu og Gunna Ísleifs á þeirri efri. Þarna byrjuðum við systur í barnapíuhlutverkinu. Við komumst í kynni við hakk og hrísgrjón og alls konar nýjungar í matargerð. Uppskriftir sem komu frá Svíþjóð og Finnlandi, heimalandi húsbóndans. Henrik var hönnuður og skreytti heimilið og hannaði með stíl sem við höfðum ekki séð áður. Stíllinn á heimili Ísbjargar frænku minnar var því öðruvísi en við áttum að venjast og fylgdi stíllinn henni hvar sem hún bjó. Þessi norræna innanhússhönnun átti eftir að móta okkar hugmyndir þegar við systur stækkuðum. Litirnir og einfaldleikinn heillaði.

Þegar ég lít til baka og fer yfir farinn veg undrar mig hve Ísbjörg mín treysti á systkinabörn sín við barnapössun og hve fallega hún tók alltaf á móti okkur unglingunum þegar við leituðum til hennar síðar á lífsleiðinni. Hún hafði faðminn sinn alltaf opinn. Glaðlega og góða viðmótið varð til þess að við sóttum í samskipti við hana. Því miður er það svo að þegar aldur færist yfir og stækkandi fjölskyldur verða til slitna oft tengslin við þá sem voru manni svo mikilvægir á lífsins leið. Ég er svo lánsöm að eitt barnabarn mitt ber nafn Ísbjargar minnar.

Við systur áttum ásamt dætrum Ísbjargar yndislega stund saman á heimili hennar í Breiðholti nú í vor. Þar tók heiðurskonan á móti okkur á sínu eigin heimili þar sem allt var í röð og reglu. Á heimili þar sem hún hafði búið í 38 ár og hin síðustu ár með aðstoð dætra sinna. Þarna tók hún á móti okkur með sitt geislandi bros og hlýja faðm. Nú er hennar lífi lokið hér á jörð og við tekur eitthvað gott sem hún á skilið.

Guð geymi góða konu og ég votta fólkinu hennar innilega samúð.

Sigríður Guðjónsdóttir.

Systkinin frá Miðkoti í Fljótshlíð lifa skært í minni mínu – ætíð brosmild, hjálpsöm og góð. Fjölskyldur Miðkotssystkinanna héldu vel saman, og við frændsystkinin nutum samverunnar og höfum haldið góðum tengslum í gegnum tíðina.

Í kotinu í Fljótshlíð var ekki mikill veraldlegur auður, en andlegur auður, góðvild og listrænt handverk voru í hávegum höfð. Nú hefur fækkað í þessum góða hópi og flest þeirra hafa náð háum aldri og fengið að halda heimilum sínum fram á síðasta dag – sem er mikils virði og segir sitt um styrk þeirra og sjálfstæði.

Ísbjörg giftist Henrik og bjuggu þau fyrstu sambúðarárin í Svíþjóð. Þar fæddist fyrsta barn þeirra, frænka mín litla, Anna – og ég man enn vel eftir komu þeirra heim og kynnum okkar. Síðar fæddust tvær dætur til viðbótar hér á Íslandi – allt saman fallegt og farsælt fólk.

Henrik og pabbi náðu einstaklega vel saman – í bíladellu, ljósmyndun og jafnvel í því að sprengja flugelda, sem þótti mér stórkostlegt ævintýri sem dreng, þó mömmu minni til ama.

Með þeim komnum frá Svíþjóð hófust kynni okkar af hrökkbrauði og Citroën DS – fyrsti bíll sinnar tegundar á Íslandi. Tækni bílsins var framandi og heillandi. Ég gleymi því ekki.

Ísbjörg og mamma héldu daglegu sambandi á efri árum – það var alltaf gleði að hlusta á þær tala saman. Aldrei kvartað en ef eitthvað amaði að var það kallað leti – og kolsvartur húmor þeirra var aldrei langt undan.

Með virðingu og þakklæti kveð ég Ísbjörgu, kæra móðursystur. Ég vona að hún og mamma geti haldið áfram samtölum sínum og hlátrinum á næsta tilverustigi.

Dætrum hennar og fjölskyldu votta ég mína innilegustu samúð.

Ísleifur Ottesen.