Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þingmenn landsbyggðarinnar eru ósammála um fyrirhugaða hækkun veiðigjalda. Þingmenn stjórnarandstöðunnar vara við neikvæðum áhrifum á atvinnulífið og þá sérstaklega í sjávarútvegsþorpum. Þingmenn stjórnarflokkanna halda því fram að frumvarpið sé…

Diljá Valdimarsdóttir

Flóki Larsen

Sveinn Valfells

Þingmenn landsbyggðarinnar eru ósammála um fyrirhugaða hækkun veiðigjalda. Þingmenn stjórnarandstöðunnar vara við neikvæðum áhrifum á atvinnulífið og þá sérstaklega í sjávarútvegsþorpum. Þingmenn stjórnarflokkanna halda því fram að frumvarpið sé mikilvægt til að tryggja sanngjarnan arð af auðlindum þjóðarinnar.

Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, er hlynntur málinu.

„Það sem ég tók eftir í kosningabaráttu minni í kjördæmi mínu er að flöskuhálsinn númer eitt, tvö og þrjú í atvinnulífinu þar er skortur á innviðum. Ef við tökum Siglufjörð sem dæmi hefur landaður afli farið mikið niður á við og það er ekki vegna veiðigjalda heldur út af því að Siglufjarðarvegurinn hefur verið á leiðinni niður í sjó.“

Landbyggðarskattar

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur miklar áhyggjur af málinu. Segir Njáll að verið sé að draga kraftinn úr landsbyggðinni með landsbyggðarsköttum.

„Skattarnir sem hafa verið boðaðir í tengslum við málið koma 80 til 85% frá landsbyggðinni. Þetta er mikið högg fyrir landsbyggðina og atvinnustarfsemi þar. Skattsporið sem fellur til af þessum veiðigjöldum sem eru boðuð er mun meira á íbúa á landsbyggðinni en íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Okkur í minnihlutanum er hafnað þegar við óskum eftir því að skatturinn komi strax inn í málið og fari í gegnum útreikninga. Það líður mjög langur tími og eftir að það er komið á hreint er komin ákveðin sátt. Þessi vinnubrögð hafa verið mjög erfið,“ segir Njáll.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, hefur verulegar áhyggjur af þeim áhrifum sem frumvarpið muni hafa á kjördæmið.

„Þegar maður fer að skoða einstaka fyrirtæki er ljóst að þetta mun setja mörg þeirra í talsverðan vanda og sérstaklega minni og meðalstóru fyrirtækin. […] Ég óttast að mörg þessara fyrirtækja muni telja einsýnt að selja kvótann, sem leiði til aukinnar samþjöppunar í greininni. Þetta hefur auðvitað gríðarleg áhrif á sveitarfélögin ef grunnatvinnugreinin fer.“

Sigmundur segir það vera áhyggjuefni hvernig frumvarpið hafi verið kynnt.

„Sjávarauðlindin mun ekki skila almenningi meiri arði eftir þetta, heldur minni. Þetta hafa menn sýnt fram á með útreikningum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki birt sína eigin útreikninga um heildaráhrifin af frumvarpinu. Ég held að það sé vegna þess að ef þau hafa reiknað þetta út sjá þau að dæmið gengur ekki upp.“

Áhrifin eru víðtæk

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, hefur miklar áhyggjur af frumvarpinu. Hann segir að frumvarpið muni hafa áhrif á landsbyggðina og sérstaklega á meðalstórar og minni útgerðir.

„Ég er alveg tilbúinn að skoða að samþykkja einhverja hækkun en þetta er allt of mikil hækkun sem kemur mjög skyndilega.“

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra og þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, er ekki á sama máli og Karl Gauti. Eyjólfur lýsir yfir ánægju með þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið og telur frumvarpið réttlátt og sanngjarnt.

Halla Hrund Logadóttir þingmaður Framsóknarflokksins segir mikilvægt að þjóðin fái aukinn skerf af takmörkuðum gæðum en leggur þó áherslu á aukið samráð og fyrirsjáanleika.

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir frumvarpið hafa áhrif á fleiri en bara stærstu útgerðirnar.

Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins telur málið hafa víðtæk áhrif og hefur hann áhyggjur af stöðnun í nýsköpun. Hann vill að þingið gefi sér tíma til að vinna frumvarpið enda sé um stórar breytingar að ræða.

Ólafur Adolfsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir málið flókið og mikilvægt sé að vanda til verka. Hann segir að breytingarnar hafi verið til bóta en séu þó ekki nægilegar. Ólafur segir nauðsynlegt að íslenskur sjávarútvegur verði betur til þess fallinn að skapa verðmæti.

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, og Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, vildu ekki tjá sig um hækkunina þegar eftir því var leitað. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sagðist hlynntur frumvarpinu en vildi ekki tjá sig frekar um það. Ekki náðist í Víði Reynisson, þingmann Samfylkingar í Suðurkjördæmi, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmann Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, Eydísi Ásbjörnsdóttur, þingmann Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, Sigurð Helga Pálmason, þingmann Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, Guðbrand Einarsson, þingmann Viðreisnar í Suðurkjördæmi, Maríu Rut Kristinsdóttur, þingmann Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, og Sigurð Inga Jóhannsson, þingmann Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Höf.: Diljá Valdimarsdóttir, Flóki Larsen