„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun ekki ganga upp. Það verður enginn afgangur af ríkissjóði næstu fimm árin,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd þingsins, í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun ekki ganga upp. Það verður enginn afgangur af ríkissjóði næstu fimm árin,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd þingsins, í samtali við Morgunblaðið.

„Ríkisstjórnin grefur jafnframt undan stöðugleika í efnahagsmálum með lagasetningu og auknum útgjöldum. Stórhækkun veiðigjalda mun til framtíðar litið draga úr tekjum ríkissjóðs af sjávarútvegi og tengdum greinum. Hótanir ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu af ferðaþjónustunni valda því að fyrirtæki í atvinnugreininni halda að sér höndum,“ segir hann.

Guðlaugur Þór bendir einnig á að tenging greiðslna almannatrygginga við laun eða verðlag, eftir því hvort er hærra hverju sinni, muni leiða til lækkunar lífeyrissjóðsgreiðslna til þeirra sjóðfélaga lífeyrissjóða sem minnst réttindin eiga. Það muni óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á afkomu þeirra.

Guðlaugur Þór segir að fjölmarga veikleika sé að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka framlög til varnarmála í 1,5% af vergri landsframleiðslu, sem væri nú um 72 milljarðar króna á ári. Það má furðu gegna að ekki er gert ráð fyrir þessu í fjármálaáætlun. Til samanburðar má nefna að heildarframlög til Landhelgisgæslunnar eru 7,5 milljarðar á ári,“ segir hann og kveður þetta furðu gegna.

Guðlaugur Þór gagnrýnir að framlög til orkumála séu skorin hressilega niður í fjárauka og fjármálaáætlun. Furðu gegni þær tillögur í rammaáætlun sem geri ráð fyrir því að hagkvæmir virkjunarkostir séu útilokaðir.

Hann gagnrýnir einnig að ríkisstjórnin skuli ekki hafa farið ekki að lögum um opinber fjármál. Leggja eigi fram fjármálastefnu svo fljótt sem auðið sé, en ríkisstjórnin hafi þóst ætla að leggja hana fram í febrúar. Ríkisstjórnin hafi loks komið fram með fjármálastefnu og fjármálaáætlun saman, engin umræða hafi farið fram í nefnd eða á þingi um stefnuna og ólíklegt sé að umræða verði um hana í sumar.

„Lögin gera ráð fyrir því að fyrst verði fjármálastefna samþykkt og á grunni hennar verði unnin fjármálaáætlun og fjárlög á þeim grunni,“ segir Guðlaugur Þór.

„Ný ríkisstjórn ætlar ekki að lækka skuldir. Ekki einu sinni skuldahlutfall ríkisins lækkar á kjörtímabilinu og lækkun skuldahlutfalls hins opinbera er nær alfarið drifið áfram af fordæmalaust góðri afkomu sveitarfélaga. Ríkisstjórnin setur sparnað aftast í sínar áætlanir,“ segir hann og bendir á að á næsta ári verði hallinn á ríkissjóði 26 milljarðar, einn milljarður 2027 og það verði ekki fyrr en 2028 sem gert sé ráð fyrir lítils háttar afgangi, skv. áætlun meirihluta fjárlaganefndar.

Guðlaugur Þór bendir á að aðstæður í efnahagslífi nú séu allt aðrar og betri en þær sem síðasta ríkisstjórn mátti glíma við. Kostnaður af covid-faraldrinum hafi numið 300 milljörðum króna en nú sé ekki lengur glímt við þann vanda. Þá falli kostnaður vegna Grindavíkur niður, sem hafi sett stórt strik í ríkisreikninginn 2024.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson