Höfnin í hjarta Hafnarfjarðar hefur tekið umtalsverðum breytingum síðastliðin ár. Bryggjan, sem er afar vinsæl meðal bæjarbúa, hefur verið uppgerð að stórum hluta og þar má ósjaldan sjá fólk með veiðistöng í von um smá afla.
Nú standa hins vegar yfir endurbætur við innsiglinguna sjálfa og má þar sjá litla vinnuvél sem tilheyrir flokki manna sem að undanförnu hefur unnið að niðurbroti og nauðsynlegum undirbúningi fyrir komandi steypuvinnu. Kanturinn sem verið er að endurnýja var kominn til ára sinna og því þörf á viðhaldi.
Á myndinni hér til hliðar má sjá framkvæmdina en örlítið utar er lítill seglbátur á ferð. Er báturinn einn þeirra fjölmörgu sem finna má daglega í höfninni og tilheyrir vinsælum siglingaklúbbi þar.