Allt tiltækt slökkvilið í Arendal í Suður-Noregi, um 65 kílómetra norðaustur með strandlengjunni frá Kristiansand, barðist í gærkvöldi við stórbruna í miðbæ þessa tæplega 47.000 íbúa bæjar, einnar af sumarleyfisperlum Agder-fylkis.
„Við höfum ekki náð stjórn á eldinum enn þá, enda blæs vel hér í Arendal í dag,“ sagði Tom Kenneth Aakenes vettvangsstjóri slökkviliðsins í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um kvöldmatarleytið í gær um gang mála við Strømsbuveien þar sem eldur kom upp í stóru íbúðarhúsi síðdegis í gær og viðbragðsaðilum barst tilkynning um klukkan 17.05 að norskum tíma.
Sex manns á sjúkrahús
Eins og víðast hvar í Noregi er timbur höfuðbyggingarefnið í Arendal og var húsið nær alelda er slökkvilið kom á vettvang og leið ekki á löngu uns eldurinn barst í næsta hús við hliðina á.
Þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi hafði slökkvilið nýlega náð tökum á eldinum í nágrannahúsinu og látið rýma næstu hús sem óttast var að eldurinn læsti sig í. Íbúa húsanna tveggja sem fyrst kviknaði í sakaði ekki og höfðu allir gert grein fyrir sér við lögreglu og slökkvilið snemma í slökkvistarfinu.
Sex manns höfðu verið sendir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun er síðast fregnaðist auk þess sem liðsauki frá slökkviliðinu í Froland var kominn á vettvang ásamt níu liðsmönnum heimavarnaliðsins.
Um og yfir 22 stiga hiti mældist víða um Suðaustur-Noreg í gær auk þess sem sterkur vindur gerði ýmsan óskunda svo sem greint var frá í frétt á mbl.is um ferjuárekstur í Ósló og gróðurelda í Buskerud. Auðvelduðu þessar aðstæður, hiti og rok, ekki slökkvistarfið í Arendal.