Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Þriðja breiðskífa söngkonunnar Marínu Óskar Þórólfsdóttur, Oh, Little Heart, kom út um miðjan júní og er hennar þriðja breiðskífa. Eins og á þeim fyrri er hún höfundur bæði laga og texta en aðrir sem komu að gerð hennar eru Kjartan Baldursson, gítarleikari og pródúsent, Ragnar Ólafsson sem leikur á píanó, Ingólfur Magnússon á kontrabassa og Ásmundur Jóhannsson á trommur. Marína kallar þá félaga „tónlistarbræður sína“ og því greinilegt að samstarfið er gott.
Söngurinn greip hana
Marína er fyrst spurð að því hver hún sé og hvenær hún hafi ákveðið að gerast söngkona. „Marína Ósk er Suðurnesjamær að uppruna, fædd og uppalin þar og hún ákvað að gerast söngkona þegar hún var frekar lítil. Það var hestakona, búðarkona eða söngkona,“ svarar hún og hlær að valkostunum.
Var hún þá sísyngjandi barn? „Já, ég var sísyngjandi og í músík frá því ég var lítil. Mamma kenndi mér á blokkflautu og setti mig svo í tónlistarskóla þar sem ég lærði lengi á þverflautu. Þar komst ég í rauninni inn í sönginn, byrjaði í klassík og fór svo yfir í ryþmískan söng og þá fór allt á flug,“ segir hún.
Fannstu fljótt fyrir því að söngurinn væri það sem þú ættir að setja stefnuna á?
„Söngurinn einhvern veginn greip mig strax. Ég spilaði náttúrlega á flautu og fannst það mjög skemmtilegt en það var eitthvað við sönginn, ég var alltaf minna stressuð fyrir því að koma fram og fann fyrir gleði þegar ég var að syngja. Það hjálpaði til,“ segir Marína. Var hún þá hvött til að læra söng? „Já, ég var það. Ég var í Myllubakkaskóla í Keflavík og þar var alltaf sett eitthvað upp fyrir árshátíðina á hverju ári, oft tónleikar eða leikrit með tónlist. Við settum Grease upp einu sinni og það voru frekar metnaðarfullir kennarar með okkur. Þar fór þetta dálítið af stað, ég fór að syngja mikið og þótti það gaman og það lá vel fyrir mér, ýtti mér áfram.“
En hvenær hófst þú feril sem atvinnusöngkona, við hvað miðar þú þar?
„Ég byrjaði að vera atvinnusöngkona þegar ég flutti til Akureyrar árið 2011. Þá í rauninni fór ferillinn dálítið af stað,“ svarar Marína. Eftir dvölina á Akureyri hélt hún til Amsterdam þar sem hún nam djasssöng og hélt svo þaðan til Stokkhólms í meistaranám í djasssöng. Hún er því meistari í djasssöng.
Marína syngur flest lögin á ensku á plötunni nýju, öll nema tvö sem eru á íslensku. Er ástæðan ef til vill sú að hún vilji ná til fleiri hlustenda, líka þeirra sem tala ekki íslensku? „Ekki beint, þetta var ekki ákveðið. Það er dálítið þannig að stundum velta upp úr manni bæði lög og textar og maður stjórnar því ekki alltaf hvort það er á íslensku eða ensku. Það var dálítið tilfellið og endaði þannig að ég samdi sjö lög á ensku og tvö á íslensku. Svo er eitt tökulag, „Time After Time“ með Cyndi Lauper,“ svarar Marína. Hún nefnir að Eva Cassidy sé hennar stærsta fyrirmynd og hún hafi einmitt flutt það lag í stórkostlegri útgáfu.
Marína ítrekar þó að hún vilji ekki líkjast neinni ákveðinni söngkonu, hún hafi verið í tónlist og námi það lengi að slík hugsun hvarfli ekki að henni. „Það er kannski frekar að ég horfi til músíkalítetsins, kraftsins og fegurðarinnar og fyllist innblæstri. Norah Jones er þar ofarlega á blaði,“ segir Marína en því miður hafi hún misst af miðum á tónleika hennar hér á landi sem haldnir verða í Hörpu 2. og 3. júlí.
Titillinn á plötunni, hvað geturðu sagt mér um hann?
„Hann kemur úr titillaginu, „Oh, Little Heart“, og er grunnurinn að plötunni. Þetta er plata sem fjallar um hjartamálin og tæklar alls konar vinkla hjartans. Það er bæði svo viðkvæmur staður í okkur en líka sterkur og hlýr. Hjartað brotnar þegar ástin hverfur, og það allt. En titillagið er samtal við hjartað um að það verði allt í lagi og þó maður verði fyrir hnjaski leyfi maður sér að vera leiður í smástund og standi svo bara upp og haldi áfram. Mikilvægt er að halda áfram því það er aldrei að vita hvað gerist næst,“ segir Marína.
Hún samdi bæði lög og texta, sem fyrr segir, að einu lagi undanskildu sem er eftir Ragnar Ólafsson og þá bæði lag og texti. Ragnar þessi er einn af liðsmönnum Árstíða. Þetta er þriðja breiðskífa Marínu og hefur hún samið lög og texta á þeim öllum. Hún er djasssöngkona í grunninn og heilmikil djassstemning á plötunni. „Þegar maður er búinn að vera í tíu ár bara í djassi er dálítið erfitt að fjarlægja djassinn úr konunni. Þó maður færist yfir á aðrar músíklendur er djassinn alltaf þarna í grunninn. Hann gerir það að verkum að maður er alltaf opinn fyrir því sem er að fara að gerast næst og alltaf í rauninni reiðubúinn fyrir hið óvænta. Sem gerir það að verkum að ég tók plötuna upp eins og hún væri djassplata, tók hana upp „live“,“ segir Marína.
Upptökur fóru fram í Stúdíó Paradís sem er í Paradísarkoti, skammt frá Sandgerði. „Þetta stúdíó er í raun eins og sumarbústaður, það er æðislegt,“ segir Marína. Í einu laganna á plötunni heyrist fuglasöngur sem Marína og samstarfsfólk hennar tók upp þar á staðnum. „Það var allt að gerast í rauntíma á meðan fuglarnir voru að hlusta á lagið,“ segir hún kímin. Þetta hafi verið mjög skemmtileg upplifun.
Hið óvænta heillar
Hvað er það sem heillar þig við djassinn?
„Það er þetta frelsi, það er ekkert í föstum skorðum. Það er samspilið og samleikurinn, hann er aldrei eins. Það er þetta óvænta, þessi óvænti vinkill, hann er alltaf viðloðandi allt sem þú gerir nema þú hafir ákveðið eitthvað alveg sérstakt. Maður er alltaf til í að eitthvað gerist sem maður átti ekki von á og það er svo geðveikt því maður getur þá farið með því og séð hvert það fer. Þess vegna vildi ég taka plötuna upp eins og djassplötu því ég vildi fanga þessa lifandi stemningu. Ég hef gert það á öllum mínum plötum og ég tók sönginn að mestu upp „live“ líka því ég vildi geta tekið þátt ef það gerðist eitthvað. Mér finnst það æði,“ segir Marína. Ef vel sé hlustað megi greina mistök hér og þar en hún hafi ekki viljað laga það, frekar viljað halda í hið óvænta.
Marína er að lokum beðin um að bera þessa plötu saman við sínar fyrri plötur. „Hún er mjög ólík þeim sem ég hef gert áður. Fyrsta platan mín var algjör söngvaskáldadjass, önnur platan var hreinræktaður djass með heimalöguðum djasslögum. Þessi plata er með djass í hjartanu en það er kántrí, rokk og popp og það er bara geðveikt. Hún endurspeglar í raun hvað ég hef verið að gera síðustu tvö ár, frá síðustu plötu. Ég byrjaði að spila í Máli og menningu og opnaði dálítið dyrnar út úr djasssenunni til að sjá hvað væri að gerast þar. Ég fílaði mig mjög vel og leyfi mér alveg í dag að fara vel á milli,“ segir Marína. Fjölbreytnin sé góð, djassgigg í dag og poppgigg á morgun.