Náttúruverndarstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið biðla til veiðimanna um að gæta hófs við lundaveiðar og hins sama er óskað þegar kemur að sölu á lundakjöti. Ástæðan er sú að lunda hefur fækkað mjög við Íslandsstrendur síðustu þrjá áratugina.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Meginástæða langtímafækkunar í lundastofninum á Íslandi er talin vera vegna uppsafnaðra áhrifa veiða sem og óhagstæðra umhverfisaðstæðna, þ. á m. hás sjávarhita. Hlýskeið í Atlantshafi síðustu þrjá áratugi hafi valdið því að minna framboð er af helstu fæðu lundans. Það er niðurstaða tveggja erlendra sérfræðinga sem fengnir voru til að rýna gögn Náttúrustofu Suðurlands m.t.t. hugsanlegra áhrifa veiða á lundastofninn. Telja sérfræðingarnir að áframhaldandi veiðar, sambærilegar þeim sem hafa áður verið, séu líklegar til að valda frekari rýrnun stofnsins.