Listir Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari tekur þátt í fyrstu sumartónleikum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar í kvöld.
Listir Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari tekur þátt í fyrstu sumartónleikum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar í kvöld. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum haldið miðaverði í lágmarki til þess að fólk setji það ekki fyrir sig að mæta aftur og aftur.

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

„Ég hlakka til að hlýða á alla þessa tónleika í sumar því það verður sitt lítið af hverju og sambland nýrri og eldri verka,“ segir Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari en í kvöld fer af stað 35. starfsár Sumartónleika Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Á fyrstu tónleikum sumarsins flytur Hlíf ásamt Sólveigu Thoroddsen hörpuleikara, Frey Sigurjónssyni flautuleikara, Martin Frewer víóluleikara og Þórdísi Gerði Jónsdóttur sellóleikara kvintetta eftir brasilíska tónskáldið Heitor Villa-Lobos og Albert Roussel og tríó eftir Maurice Ravel.

Heyrist ekki á hverjum degi

„Freysi bróðir minn fékk þá hugmynd að flytja þessi öndvegisverk. Ég hef aldrei áður heyrt þau flutt lifandi og man ekki til þess að þau hafi verið flutt hér á landi. Það má því segja að þetta sé einstakt og nokkuð sem maður heyrir ekki á hverjum degi,“ segir Hlíf um efnisskrá kvöldsins en Villa-Lobos samdi Quinteto Instrumental árið 1957 að beiðni hljóðfærakvintetts franska ríkisútvarpsins sem frumflutti það fimm árum síðar í Rio de Janeiro. Þá samdi Albert Roussel Sérénade op. 30 árið 1925 fyrir sama hóp og tileinkaði það flautuleikara kvintettsins, René le Roy. Var það frumflutt í París sama ár, eða fyrir réttum eitt hundrað árum. Loks má nefna að baskneskra áhrifa gætir í verki Ravels en heyra má stef baskneskrar vögguvísu í öðrum kafla.“

Píanóleikari spilar Wagner

Um tónleikaröðina í heild segir Hlíf að fólk megi eiga von á góðu. „Það sem ber kannski hæst er að þann 15. júlí leikur píanóleikarinn Konstantin Zvyagin Svítu í 8 myndum, sem eru hans eigin umritanir úr Niflungahring Richards Wagners. Konstantin, sem er af rússneskum uppruna en býr og starfar í Darmstadt í Þýskalandi, hefur undanfarið helgað sig tónlist Wagners og eru þessir tónleikar haldnir í samstarfi við Wagnerfélagið á Íslandi. Við erum oftast með kammertónlist þannig að það er virkilega ánægjulegt að fá stórpíanóleikara á borð við Zvyagin til okkar.“

Hlíf segir að búast megi við mikilli fjölbreytni í sumar og nefnir til að mynda harmóníkutónleika sem haldnir verða 29. júlí. „Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmóníkuleikari mun leika eigin útsetningar á Bach, Boulanger og íslenskri tónlist, sálmum, þjóðlögum og tangóum á harmóníku. Það sem er líka einstakt við tónleikaröðina hjá okkur er að áheyrendum gefst kostur á einstakri upplifun, að hlýða á tónlist og njóta myndlistar á meðan. Tónleikaröðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi hjá mörgum og ég hef fengið fjölmörg símtöl þar sem verið er að spyrja hvort ekki fari að koma tónleikar.

Mjög gefandi starf

Þetta hefur verið mjög gefandi starf og við höfum haldið miðaverði í lágmarki til þess að fólk setji það ekki fyrir sig að mæta aftur og aftur til þess að njóta lifandi tónlistar. Ég þekki það sjálf sem tónlistarmaður að erlendis kemur fólk gjarna án þess að þekkja viðkomandi en hér er það örlítið þannig að þeir sem mæta eru vinir og vandamenn að styðja sitt fólk. En aðstaðan er óviðjafnanleg, hér er hægt að njóta alls þess besta – listar, sólarlags auk þess sem kaffistofan er opin eftir tónleikana.

Tónleikaröð þessi hefur þá sérstöðu að vandað umsóknarferli er opið öllum tónlistarmönnum og valið er úr umsóknum á faglegum grunni og höfuðáhersla lögð á klassíska tónlist og nútímaverk. Í ár sóttu 30 aðilar um þá tónleika sem í boði voru og var því erfitt úr að velja. En athygli vekur að oft verður eitt hljóðfæri meira áberandi en önnur og í ár eru tvennir tónleikar með hörpu.“

Neitun frá tónlistarsjóði

Hlíf segir að líklegt sé að þetta verði síðustu sumartónleikar
safnsins en erfiðlega hefur gengið að fjármagna þá. „Þetta er áhyggjuefni en ljóst er að án eins er ekki annað. Við sóttum um í tónlistarsjóð og fengum neitun í fyrsta skipti í öll þessi ár. Ég veit að margir af kollegum mínum fengu einnig neitun og þá vaknar sú spurning hver sé tilgangur
tónlistarsjóðs. Fyrir hvað og til hvers er hann? Hér erum við að lifa tíma þar sem það er orðið lífsnauðsynlegt fyrir tónlistar-
menn að halda tónleika. Fólk er hætt að kaupa geisladiska og margir eiga ekki einu sinni geisladiskaspilara og því eru tónleikar svo mikilvægir sem tekjulind fyrir tónlistarmenn.

Við erum með fullt af vel menntuðu tónlistarfólki og það vantar ekki áhugann á tónlist, síður en svo. Þetta er grasrótin okkar, ef það á ekki að hlúa að henni, hvar stöndum við þá? Þá blasir bara við menningarlegur landflótti,“ segir Hlíf. Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 20.30 í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og nánari dagskrá sumartónleikanna má finna á heimasíðu safnsins, lso.is.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir