Á æfingu Piltarnir hafa rifjað upp gamla takta að undanförnu. Þorsteinn Eggertsson fremstur, Guðmundur Haukur Jónsson og Gunnar Guðjónsson í miðjunni og Gunnar Ringsted, Ari Jónsson og Vignir Bergmann aftast.
Á æfingu Piltarnir hafa rifjað upp gamla takta að undanförnu. Þorsteinn Eggertsson fremstur, Guðmundur Haukur Jónsson og Gunnar Guðjónsson í miðjunni og Gunnar Ringsted, Ari Jónsson og Vignir Bergmann aftast. — Morgunblaðið/Karítas
Að undanförnu hafa liðsmenn hljómsveitarinnar Roof Tops æft Bítlalög við íslenska texta eftir myndlistarmanninn Þorstein Eggertsson, söngvara og textahöfund, vegna tónleika í Salnum í Kópavogi 15. október

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Að undanförnu hafa liðsmenn hljómsveitarinnar Roof Tops æft Bítlalög við íslenska texta eftir myndlistarmanninn Þorstein Eggertsson, söngvara og textahöfund, vegna tónleika í Salnum í Kópavogi 15. október. „Þetta verða tónleikar honum til heiðurs,“ segir forsprakkinn og drifkrafturinn Guðmundur Haukur Jónsson, píanóleikari og söngvari, sem gekk til liðs við Roof Tops 1970.

Bandið var stofnað síðla 1967 og starfaði til 1975. Nokkrar mannabreytingar urðu á þessum tíma en í febrúar sl. kom út bókin Barnalög fyrir alls konar fólk eftir Guðmund Hauk. Bókinni fylgdi geisladiskur með lögum eftir höfundinn við eigin texta og einnig ljóð eftir Þórarin Eldjárn og Kristján frá Djúpalæk. Á útgáfuhófinu fékk Guðmundur Haukur nokkra félaga sína úr Roof Tops til að leika með sér lög af hljómplötunni og í kjölfarið viðraði hann hugmynd sína um fyrrnefnda tónleika.

Afkastamikill heiðursfélagi

Þorsteinn hefur samið sjö til átta hundruð texta við lög eftir aðra og yfir fjögur hundruð dægurlagatextar eftir hann hafa verið gefnir út á hljómplötum. Hann söng með ýmsum hljómsveitum og þar á meðal KK-sextettinum. Samtök tónskálda, textahöfunda og annarra rétthafa, STEF, sæmdu hann heiðursmerki sínu á degi íslenkrar tónlistar í nóvember í fyrra. „Þorsteinn er einn mikilvirkasti textahöfundur Íslendinga og eftir að ég fékk textana frá honum spannst þessi samvinna, að spila Bítlalög með íslenskum textum hans,“ segir Guðmundur Haukur. „Með tónleikunum heiðrum við hans merka starf í þágu íslenskrar dægurtónlistar.“

Í bandinu núna eru Guðmundur Haukur píanóleikari og söngvari, Gunnar Guðjónsson bassaleikari, Ari Jónsson trommuleikari og söngvari, Gunnar Ringsted gítarleikari og söngvari og Vignir Bergmann gítarleikari og söngvari. „Við smullum saman í útgáfuhófinu, fengum sérlega fínar móttökur,“ segir Guðmundur Haukur.

Félagarnir hafa æft um 30 lög, sem Bítlarnir gerðu fræg á sínum tíma. „Þar á meðal er lagið „Here, There and Everywhere“, sem Þorsteinn gerði mjög fallegan texta við, sérstaklega fyrir okkur,“ heldur Guðmundur Haukur áfram. „Þetta er eitt besta lag Bítlanna,“ staðhæfir hann og vísar í ummæli Pauls McCartneys þess efnis og að John Lennon hafi tekið undir þau, sagt að þetta væri mjög gott lag hjá Paul. „Þetta er mjög flott lag frá fagurfræðilegum sjónarhóli,“ áréttar Guðmundur Haukur og segir að það verði á dagskrá á tónleikunum. „En við spilum aldrei öll lögin sem við höfum foræft á tónleikunum. Eigum líka kannski eftir að bæta einhverjum lögum við og henda öðrum út.“

Guðmundur Haukur viðurkennir að hann hafi séð fyrir sér að þeir myndu spila létta kammermúsík, „hafa þetta svolítið lekkert, eins og frænka mín hefði sagt, en strákarnir sannfærðu mig um að ekki væri hægt að spila Bítlalög án þess að gefa svolítið í“. Hann bætir við að þeir finni fyrir mikilli stemningu fyrir framtakinu. „Við erum af svonefndri Bítlakynslóð og hún er helsti markhópur okkar.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson