Stefanía Flosadóttir fæddist 28. apríl 1940 í Reykjavík. Hún lést 17. júní 2025 á Hrafnistu Boðaþingi eftir langa baráttu við alzheimer.

Foreldrar hennar voru Flosi Einarsson og Margrét Guðmundsdóttir. Stefanía átti eina hálfsystur, Guðrúnu Flosadóttur, og eina alsystur, Bryndísi, sem lifir systur sína. Þær voru báðar eldri en Stefanía.

Stefanía ólst upp í Reykjavík, aðallega í Vesturbænum, gekk í Melaskóla og Laugarnesskóla. Stefanía vann sem þerna í Kaupmannahöfn og einnig sem þerna á Gullfossi.

Árið 1964 giftist hún Gunnari Magga Árnasyni offsetprentara. Börn þeirra eru þrjú: Margrét, f. 6. janúar 1963, Árni, f. 18. desember 1968, og Hulda Guðrún, f. 9. janúar 1976. Stefanía átti þrjú barnabörn, Hildi Maríu Þórisdóttur, Stefaníu Ósk Þórisdóttur og Guðrúnu Margréti Þórisdóttur. Langömmubörnin eru þrjú; Þórir Rúnar, Emma Björg og Bára Lovísa.

Stefanía vann aðallega við bókband, sem þerna og rak síðan prentsmiðjuna Prenttækni í yfir 50 ár. Stefanía var mikið í sjálfboðastörfum fyrir hestamannafélagið Fák ásamt eiginmanni sínum.

Útför fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 1. júlí 2025, klukkan 13.

Elsku besta mamma.

Í dag kveðjum við mömmu í síðasta skipti. Hvað getur maður sagt þegar þessi tími kemur upp? Það er svo margt sem mig langar að segja þér elsku mamma.

Við mamma bjuggum saman síðastliðin 20 ár eftir að pabbi fór og við brölluðum margt saman, fórum í bíltúr á gamla bensanum með gamla númerið frá afa, R-4444, og þú talaðir alltaf um hvað bíllinn væri nú flottur … alla ísbíltúrana okkar niður á Granda og svo tókum við rúnt fram hjá Seljaveginum og svo á Brávallagötuna þar sem þú mundir allt frá því í gamla daga.

Í gegnum árin varstu ávallt til staðar fyrir mig og minn helsti klettur. Þú varst ávallt á staðnum, til dæmis þegar ég vann alla Íslandsmeistaratitlana í kokteil og fagnaðir mest.

Ég minnist líka allra bingódaganna hjá okkur á Boðaþingi alla mánudaga, þá varst þú í essinu þínu.

Þú varst alltaf ánægðust þegar þú hafðir mikið af fólki í kringum þig og undir þér best uppi í sumarbústað eða í öllum ferðalögunum ykkar til Spánar og fleiri landa, þar varstu ánægð.

Ég man líka þegar ég var skiptinemi í Colorado og þú sendir mér öll gömlu morgunblöðin og harðfiskinn og íslenskan lakkrís og fólkið á pósthúsinu og svo fjölskyldan mín þar skildi ekki lyktina af pakkanum … jú þar var jú harðfiskur sem þú sendir mér!

En nú ertu farin í sumarlandið til pabba og hans Krumma og Skörungs og kannski eruð þið pabbi bara komin á bak í einhverjum hestatúrnum þarna uppi.

En ég á eftir að sakna þín, elsku mamma, svo rosalega mikið. Að hafa misst ekki bara mömmu heldur minn besta vin er svo óstjórnalega sárt og vont að hafa þig ekki hér hjá mér.

Elsku mamma, eða eins og þú varst vön að segja þegar ég var að fara frá þér uppi í Boðaþingi:

Dillaðu þér!

Ég elska þig ávallt.

Þinn sonur,

Árni Gunn.

Elsku amma, hvar eigum við að byrja? Það er erfitt að setja í orð hvað amma Stebba hefur þýtt mikið fyrir okkur systur. Hún var alltaf tilbúin að gera hvað sem er fyrir okkur þegar þess þurfti – hvort sem það var að sækja í skólann, skutla á æfingar eða fara með okkur út um allan bæ. Við eigum svo óteljandi minningar sem munu lifa með okkur, og þegar við hugsum til þín, elsku amma, þá er það alltaf með bros á vör og hlýju í hjarta.

Þær voru margar ferðirnar sem við fórum með ömmu í Skalla að fá okkur ís, og í leiðinni keypti amma sér alltaf happdrættismiða, happaþrennu eða lottó – því hver veit nema hún myndi vinna.

Það var alltaf gott að koma til ykkar afa í Hálsaselið eða í sumarbústaðinn, þar sem við eyddum ófáum stundum með ykkur í gegnum árin. Þið, amma og afi, voruð alltaf tilbúin að passa okkur þegar mamma og pabbi ferðuðust um heiminn. Hálsaselið var okkar annað heimili á meðan þið bjugguð þar – og maður fékk allt sem maður vildi: 2 l kók þegar við vorum yngri, nóg af ís, eða að laumast í nammiskálina inni í stofu.

Þegar amma spurði okkur hvað við vildum hafa í matinn, þá var það aldrei flókið val – annaðhvort ömmu-kjúlli eða kjötfarsbollur. Um jólin var það svo hangikjötið hennar ömmu sem stóð upp úr.

Við eigum líka dýrmætar minningar frá því þegar við fengum að fara einar með ömmu til Danmerkur, að heimsækja Biddy frænku. Þar áttum við frábæra tíma saman sem við munum alltaf geyma í hjörtum okkar.

Ég er svo glöð að þú hafir fengið að kynnast og hitta langömmubörnin þín tvö. Ég verð dugleg að segja þeim sögur af þér.

Við getum ekki sleppt því að minnast á Þverholtið okkar besta. Þar eyddum við ótal stundum með ömmu og afa – í heita pottinum, í reiðtúrum, við spil og leiki. En eitt sem við þoldum alls ekki var þegar amma tók okkur með sér út að hreinsa stéttina og reyta arfa … Guð minn góður amma, við nenntum þessu ekki! En við gerðum þetta samt – því það var með þér.

Hvíldu í friði elsku stuðpinninn okkar, við elskum þig að eilífu.

Stefanía Ósk og
Guðrún Margrét.

Það lifnar yfir sumarlandinu þegar hún Stebba er mætt á svæðið. Hún naut þess að hafa líf og fjör, söng og gleði, góðan mat og marga vini til að njóta þess með. Þau hjónin, Gunni Maggi og Stebba, voru höfðingjar heim að sækja og marga ánægjustundina áttum við með þeim á árum áður, bæði innanlands og utan. Með þeim sköpuðust ýmis ævintýrin. Í fyrstu sólarlandaferðinni okkar nutum við öruggrar forystu Gunna Magga, sem valdi veitingastaðina með bestu og stærstu steikurnar. Í sumarferð með Prenttækni fórum við í fyrsta sinn í golf og ekki varð aftur snúið. Með þeim kynntumst við líka skemmtilegu samfélagi hestamanna í Fáki og þótt það leiddi ekki til margra útreiðartúra lifa minningarnar um glæsilega nýársfagnaði og dillandi kvennakvöld.

Stebba hafði lag á að krydda tilveruna, hún elskaði að kaupa litlar gjafir og gefa þegar hópurinn kom saman, sólhatta á stelpurnar, litrík staup, skrautlega blómsveiga, allt til að gleðja og kæta. Hún vildi endilega létta undir með mér við eina ferminguna og kom með marengstertu, þótt hún stundaði það lítið að baka. Svona var Stebba, góður vinur vina sinna og alltaf rausnarleg.

Hún stóð þétt við hlið Gunna Magga í rekstri prentsmiðjunnar, en á þeim vettvangi kynntust þau í upphafi. Ég var í íhlaupavinnu hjá þeim um nokkurt skeið og var oft gaman hjá okkur Stebbu, hún að hefta og ég að stinga saman. Mikil gleði þegar stórum verkefnum var lokið, s.s. tímariti Samhjálpar eða Heimilis og skóla.

Stebba naut þess að syngja og leiddist það ekki þegar ég gerði nýjan texta við hennar uppáhaldslag „Í Skólavörðuholtið hátt“ og auðvitað fjallaði hann um sólalandaferð og guðaveigar.

Gunni Maggi féll frá 2003 og var okkur öllum harmdauði. Stebba saknaði hans mikið en hélt sínu striki meðan heilsan leyfði. Hún ferðaðist til útlanda, oft til Biddýar systur sinnar sem bjó um árabil í Danmörku. Sólarlandaferðirnar voru líka upplyfting og alltaf var gott að skreppa í Þverholtið í Grímsnesinu.

Með árunum minnkuðu samskiptin, Stebba fékk inni á Boðaþingi og naut þar góðrar umönnunar. Börnin hennar, Magga, Árni og Hulda, voru dugleg að setja inn myndir á FB og brosin hennar Stebbu ljómuðu þegar eitthvað var gert þar til skemmtunar, bingó, söngur eða trall. Þannig minnist ég elsku Stebbu og þakka fyrir góð og gefandi kynni við þau Gunna Magga. Blessuð sé minning þeirra.

Unnur Halldórsdóttir.