Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Tæplega 17 þúsund tilkynningar um vanrækslu barna bárust barnaverndarþjónustum á síðasta ári. Þetta kemur fram í skýrslu Barna- og fjölskyldustofu þar sem tekinn er saman fjöldi tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2022-2024.
Halla Björk Marteinsdóttir, félagsfræðingur hjá Barna- og fjölskyldustofu, segir að eftir að tilkynning berist taki barnaverndarþjónusta ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun eða ekki.
„Ef tekin er ákvörðun um að hefja könnun stofnast barnaverndarmál og getur könnun málsins tekið 3-4 mánuði skv. barnaverndarlögum. Niðurstaða könnunar getur verið sú að ekki sé talin ástæða til að aðhafast frekar eftir að málið hefur verið kannað. Það þýðir samt ekki endilega að ekki hafi verið ástæða til að tilkynna og hefja könnun. Eftir könnun barnaverndar er sumum málum lokað en önnur mál halda áfram og gerir þá barnavernd áætlun um meðferð málsins með fjölskyldunni.“
Spurð hve margir foreldrar séu í þeirri stöðu að vera til skoðunar hjá barnaverndaryfirvöldum, jafnvel mánuðum saman án þess að tilefni hafi verið til, segist Halla Björk ekki vera með upplýsingar um það. Það sé barnaverndarstarfsmaður sem taki við tilkynningu og leggi mat á hvort bregðast þurfi við.
„Í 57,5% tilvika á árinu 2024 taldi barnavernd ástæðu til þess að hefja könnun í máli barns eða mál barnsins var þegar til könnunar eða opið mál hjá barnaverndarþjónustunni. Þegar könnun lýkur eru teknar saman upplýsingar um niðurstöðu könnunar, þar sem lagt er mat á það hvort fjölskyldan þurfi áframhaldandi stuðning. Þá er gerð meðferðaráætlun með úrræðum sem styðja við fjölskylduna.“
Flestar tilkynningar berast frá opinberum aðilum, eða 66,5%. Tilkynningar frá ættingjum, nágrönnum eða öðrum í nærumhverfi barns eru 15% tilvika.