Vísindi Aðstæður hér líkjast þeim sem finnast á öðrum plánetum.
Vísindi Aðstæður hér líkjast þeim sem finnast á öðrum plánetum.
Geimverur og líf á öðrum plánetum eru meginumræðuefni BEACON-ráðstefnunnar í stjörnulíffræði sem fer fram í Hörpu dagana 1.-5. júlí, að sögn Sævars Helga Bragasonar stjörnufræðings. Stjörnulíffræði er tiltölulega ný fræðigrein sem sameinar ýmsar…

Björn Diljan Hálfdanarson

bdh@mbl.is

Geimverur og líf á öðrum plánetum eru meginumræðuefni BEACON-ráðstefnunnar í stjörnulíffræði sem fer fram í Hörpu dagana 1.-5. júlí, að sögn Sævars Helga Bragasonar stjörnufræðings.

Stjörnulíffræði er tiltölulega ný fræðigrein sem sameinar ýmsar ­greinar undir einum hatti og rannsakar líffræði á öðrum plánetum. Sævar segir Ísland vera í brennidepli rannsókna í stjörnulíffræði þar sem aðstæður hér á landi séu víða svipaðar þeim sem finnast á öðrum hnöttum.

Nóg verður um að vera fyrir almenning á ráðstefnunni, að sögn Sævars. „Það verða pallborðsumræður um vísindaskáldskap á miðvikudaginn í Hörpu og svo verður sýning í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, sem fjallar um hella á jörðinni og í geimnum.“

Oddur Vilhelmsson, örverufræðingur við Háskólann á Akureyri, er meðal þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni en hann hefur lengi rannsakað örverulíf við ólífvænlegar aðstæður í hellum á Íslandi.

„Tengsl okkar rannsókna við geimlíffræði eru í raun og veru þau að ef það hefur einhvern tímann verið líf á Mars hefðu helstu ummerki um það varðveist í hellum sem þar er mikið af,“ segir Oddur.

Höf.: Björn Diljan Hálfdanarson