Drangey á sér merka sögu.
Drangey á sér merka sögu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Drangey gekk undir nafninu „Snemmbæra Skagfirðinga,” en þeir sóttu til hennar bæði egg og fugl á hverju vori.

Guðni Ágústsson

Drangey rís upp af miðjum Skagafirði þverhnípt og fögur. Drangey gekk undir nafninu „Snemmbæra Skagfirðinga“, en þeir sóttu til hennar bæði egg og fugl á hverju vori. Enn fremur var verstöð þar og gerðir út bátar og róið til fugls og fiskjar.

Í gamalli þjóðsögu segir að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir fjörðinn þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur kerling sunnan hennar. Karlinn var fyrir norðan eyna og féll í jarðskjálfta á þeim örlagadegi 11. september 1755.

Á dögunum kleif ég Drangey, var í ferð með hópi fólks, en Jón Eiríksson Drangeyjarjarl tók að ferja ferðamenn til eyjarinnar árið 1990 og síðan hafa slíkar ferðir verið stundaðar og nú af Viggó Jónssyni Drangeyjarjarli ll og Helga Rafni Viggóssyni Drangeyjarjarli lll, genin hafa ræktast fram. Það var ævintýri að kynnast Jóni og eiga hann að vini og hlusta á frásögn hans og ganga um eyjuna undir hans leiðsögn. Jón seig í björg eftir eggjum og veiddi fugla, var sigmaður í 50 ár. Hann er einn fárra manna sem klifu Kerlinguna, sem er 52 metra hár drangur. Orðatiltæki Jóns var: „Það eru til ráð við öllu nema ráðaleysinu.“ Þegar ég kleif Drangey 1990 leiddi ég sex ára dóttur mína en fljótt sá hún að hin stóra hendi Drangeyjarjarlsins var traustari.

Það var ævintýri að ferðast með þeim feðgum á dögunum og upplifa sögu eyjarinnar, ganga í Grettisbæli, koma að Grettisbrunni og standa á bjargbrún Heiðnabergs og heyra söguna af Guðmundi góða Arasyni biskupi á Hólum sem fenginn var til að vígja fuglabjörgin og blessa þau gegn slysum. En þá kom loðin loppa með hníf út úr berginu og sagði: „Vígðu nú ekki meira Gvendur biskup, einhvers staðar verða vondir að vera.“

Helgi Drangeyjarjarl fól mér það hlutverk að segja sögu Grettis og Illuga og flytja Illugadrápu en það gerði afi hans fyrir mig og mína ferðafélaga af munni fram fyrir 35 árum. Svo sagði jarlinn frá Grettissundi þegar Grettir sótti eldinn til Reykjastrandar, sem er sjósund um sjö kílómetra langt. Lengi vel töldu flestir þessa sögu vera ýkjusögu sem ekki stæðist, svo fóru menn að reyna sig og bæði karlar og konur hafa þreytt sundið með góðum árangri. Það vakti athygli okkar ferðalanganna þegar Helgi sagði okkur að besta tímann ætti Sigurjón Þórðarson alþingismaður, sem í dag stendur í römmum átökum á Alþingi.

Enginn hefur farist í Drangey síðan Friðrik, skagfirskur afburðasigmaður, fórst 1924 í Heiðnabergi í eggjatöku. Faðirvorið er í stóru letri greypt í bergið í upp- og niðurgöngunni.

Nú gerum við út á fræga sögustaði eins og Drangey, Flóaáveituna og Brennu-Njáls sögu, Íslendingar njóta leiðsagnar um landið sitt og erlendir ferðamenn koma og sækja frægustu staði landsins heim. Erlendir ferðamenn verða bergnumdir og ljósmyndarar hrífast af myndasjóinu á bjargi Heiðnabergs. Skyldu vera til Skagfirðingar sem aldrei hafa siglt eða gengið upp í Drangey? „Duttu af mér allar dauðar lýs,“ sagði gamla fólkið forðum, en ég frétti að tveir frægustu mennirnir á skagfirska efnahagssvæðinu hefðu hvorugir komið í Drangey?

Ég skrifa þessa grein til að hvetja sem flesta sem hafa til þess þrek að gera sér ferð í Drangey með Drangeyjarjörlunum og öðlast hlutdeild í ævintýri sem lifir með litlu afastelpunum mínum sem með mér voru, um vonandi langa ævi.

Svo lauk ferðinni með því að Viggó Drangeyjarjarl flutti Grettisbæli Einars Benediktssonar með kynngimagnaðri karlmannsröddu, upphafið hljóðar svo:

Ég stari út yfir storð og mar,

og hallast að hrundum þústum.

Ég lít í kring yfir kot og sel,

yfir kroppaðar þúfur, blásinn mel,

og feðranna frægð í rústum.

Drangey er djásn sem þú skalt heimsækja með vinum þínum.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Guðni Ágústsson