Apríl 2025 Heiða Björk og Hreinn með barnabörnunum í fermingu þeirrar yngstu, Karenar Lilju, núna í vor.
Apríl 2025 Heiða Björk og Hreinn með barnabörnunum í fermingu þeirrar yngstu, Karenar Lilju, núna í vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heiða Björk Rúnarsdóttir fæddist 1. júlí 1955 í Reykjavík og bjó framan af aldri lengst af í Hlíðunum og hóf skólagönguna í Hlíðaskóla. Þegar hún var tíu ára flutti fjölskyldan í Kópavoginn og hún gekk í Kársnesskóla og síðan í Gagnfræðaskóla Kópavogs

Heiða Björk Rúnarsdóttir fæddist 1. júlí 1955 í Reykjavík og bjó framan af aldri lengst af í Hlíðunum og hóf skólagönguna í Hlíðaskóla. Þegar hún var tíu ára flutti fjölskyldan í Kópavoginn og hún gekk í Kársnesskóla og síðan í Gagnfræðaskóla Kópavogs.

„Ég átti því láni að fagna að móðuramma mín og hennar maður, Pétur J. Jóhannsson, bjuggu um langt skeið í Mjóanesi í Þingvallasveit. Þar dvaldi ég oft frá fimm ára aldri og kynntist fegurð náttúrunnar í sveitinni í gegnum ömmu mína sem var mikið náttúrubarn,“ segir hún og bætir við að hún hafi snemma farið í sumarvinnu. „Það var lán mitt að kynnast góðu fólki á þessum árum, var meðal annars í vist í þrjú sumur hjá hjónunum sem bjuggu rétt hjá okkur á Þinghólsbraut. Sá vinskapur var mér dýrmætur og óhætt að segja að vera mín á því heimili var eins og besti húsmæðraskóli enda húsmóðirin einstök kona.“

Þegar kom að landsprófsárinu ákvað Heiða Björk að fara á Núp í Dýrafirði. „Fjölskylda bestu vinkonu minnar var að flytja til Svíþjóðar og ég vildi líka breyta til og sá heimavistarskóla í einhverjum hillingum.“ Hún segir að það hafi verið mikil reynsla að vera fyrir vestan þetta ár. „En ég kynntist yndislegum stelpum sem voru með mér í herbergi.“ Eftir veturinn ákvað hún að fara í Kvennaskólann og taka kvennaskólapróf. „Á þeim árum þótti gott að vera með kvennaskólapróf, og Guðrún P. Helgadóttir skólastjóri sá til þess að námið væri fyrsta flokks.“

Heiða Björk trúlofaði sig 17 ára gömul. „Við þekktust úr Kópavoginum, en hann átti heima í næstu götu og við vorum bæði í skátunum.“ Þau fóru strax að huga að því að eignast íbúð og hún fór að vinna meðan hann lauk við rafeindafræði í Iðnskólanum. „Við keyptum íbúð í gegnum Byggingasamvinnufélag Kópavogs í Furugrundinni, en það var frábært framtak undir stjórn Gríms Runólfssonar. Það var boðið upp á að kaupendur gætu unnið í verkamannavinnu við bygginguna og Hreinn gerði það með Iðnskólanum um helgar.“

Tvítug voru þau komin í íbúðina og eignuðust dótturina þar. „Það var ansi erfitt þennan vetur að fara út með vagninn, en eins og margir muna voru gatnamál í ólestri í bæjarfélaginu og vantaði meira og minna allar gangstéttir.“ Heiða Björk fór að vinna þegar dóttir hennar var sex mánaða á skrifstofunni hjá Byko og var þar í eitt og hálft ár. Þá fékk Hreinn tilboð um vinnu í Noregi hjá norska útvarpinu og þau fóru til Óslóar í eitt ár. „Þar var ég heimavinnandi með Dagnýju tveggja ára og þetta var góður tími. Þetta var í fyrsta sinn sem Hreinn fór til útlanda, en ég hafði heimsótt vinkonu mína í Svíþjóð, svo ég var svolítið forframaðri,“ segir hún og hlær, en bendir á hve tímarnir hafi breyst.

Eftir að heim var komið fór Heiða Björk að vinna og átti síðan son sinn og var þá dagmamma í þrjú ár og vann síðan hjá Félagsmálastofnun Kópavogs og hjónin byggðu sér hús í Álfaheiði. Þá ákvað hún að drífa sig í Fóstruskólann, enda mesta búbaslið að baki. „Það var stórkostlegt að fara aftur í skóla og ég virkilega naut þess,“ segir hún og eftir námið fór hún að vinna sem leikskólakennari og var síðan leikskólastjóri í hátt í 30 ár á Kópasteini. „Skólinn er á einum fegursta stað Kópavogs í Borgarholtinu og það var mikið starfsmannalán í skólanum og starfið ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir hún en hún lét af störfum fyrir þremur árum.

Hjónin hafa alltaf haft gaman af trjá- og blómarækt og má sjá þess merki í garðinum þeirra. „Fjölskyldan átti lítið sumarhús uppi við Rauðhóla þar sem við vorum mikið á sumrin, en núna erum við meira að rækta garðinn okkar,“ segir hún og bætir við að Hreinn hafi verið áratugum saman í kór og hún hafi haft gaman af því að fylgja með þar. „Svo erum við annáluð jólabörn,“ segir hún og hlær. „Pabbi var mikið fyrir stemningu á jólunum. Það voru málaðir veggir, saumuð föt og bakaðar tólf sortir af smákökum, og við höfum reynt að leggja alúð í þessa hátíð og virkilega njótum jólanna.“

Hún segir einnig að þau séu lánsöm að barnabörnin búi nærri og þau njóti þess. „Svo hef ég notið góðs af Virk og vellíðan fyrir eldri borgara hérna í bænum, sem er stórkostlegt framtak, og maðurinn minn er virkur í Sögufélagi Kópavogs,“ segir hún og bætir við hvað bærinn hafi breyst mikið á þessum árum. „Það er best að búa í Kópavogi og við viljum hvergi annars staðar búa.“

Fjölskylda

Eiginmaður Heiðu Bjarkar er Hreinn Valdimarsson, f. 2.10. 1952. Hann starfaði lengst af sem hljóðmaður hjá RÚV. Foreldrar Hreins voru Jófríður M. Guðmundsdóttir, f. 17.9. 1913, d. 15.1.2003, húsmóðir, og Valdimar N. Aðalsteinsson, f. 10.10. 1924, d. 28.8. 2001, bifvélavirki og lengst starfsmaður hjá SÍS. Þau bjuggu í Kópavogi.

Börn Heiðu Bjarkar og Hreins eru: 1) Dagný Björk rekstrarstjóri, f. 1975, hún er gift Steinari Loga Nesheim framleiðanda, f. 23.3. 1975, þau eiga Matthías Loga, f. 2004, og Arnald Loga, f. 2006, og búa í Grafarvogi. 2) Vignir, f. 1980, húsasmíðameistari, í sambúð með Ingibjörgu G. Brynleifsdóttur, f. 25.11.1979, líffræðingi. Þau eiga Valdimar Leó, f. 2008, og Karen Lilju, f. 2011, og búa í Kópavogi.

Systkini Heiðu Bjarkar eru: Fjóla Rut, f. 4.5. 1958, heilsunuddari og listakona, býr á Spáni og Íslandi; Linda Rún, f. 12.10. 1963, fótaaðgerðarfræðingur, býr í Danmörku; og Gunnar Örn, f. 23.3. 1965, húsasmíðameistari í Garðabæ.

Foreldrar Heiðu Bjarkar voru Rúnar L. Ólafsson, f. 25.11. 1933, d. 28.7. 2017, bifreiðastjóri og Sigurlína Konráðsdóttir, f. 6.6. 1937, d. 27.1. 2025, skrifstofustjóri hjá Félagsmálastofnun Kópavogs.