Birta Hannesdóttir
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
Óljóst er hver tók ákvörðun um lokun starfsstöðvar Brúarskóla við Dalbraut, sem sinnir viðkvæmum hópi barna og ungmenna á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), en greint var frá lokuninni í blaðinu í gær.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins var tveimur kennurum starfsstöðvarinnar sagt upp um miðja síðustu viku en í svörum frá borginni segir að um endurskipulagningu sé að ræða og ekki komi til uppsagna starfsmanna. Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að um misskilning sé að ræða sem verið sé að vinna úr.
Endurskipulagningu ekki lokið
Þáverandi sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs, Helgi Grímsson, kallaði eftir því að gerð yrði úttekt á Brúarskóla í kjölfar niðurstöðu úttektar KPMG á Klettaskóla, sem unnin var veturinn 2021/2022. KPMG sá einnig um úttektina á Brúarskóla en hún var unnin árið 2023 og niðurstöðunum skilað sama ár. Hjördís segir að í kjölfar niðurstöðunnar hafi tillögur að breytingum á skólanum verið unnar.
Fullyrðir hún í svari að áfram verði lögbundinni kennsluskyldu á BUGL sinnt. Þá segir hún að verkefni og kennslufyrirkomulag séu í endurskoðun. Endurskipulagningu á skólastarfi sé ekki lokið og því miður hafi ekki verið rætt við alla hlutaðeigandi áður en „málið fór í opinbera umræðu“.
Hluti barna sem dvelja á BUGL er á framhaldsskólaaldri en Reykjavíkurborg hefur einnig sinnt þeim þrátt fyrir að framhaldsskólastigið heyri undir ríkið. Í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins segir að Reykjavíkurborg hafi óskað eftir fundi vegna kostnaðar við kennslu nemenda á framhaldsskólaaldri, meðal annars á BUGL. Fundurinn var haldinn 23. júní síðastliðinn. Á fundinum var tekin ákvörðun um að afla frekari gagna, hittast á ný eftir sumarleyfi og leggja línur fyrir framhaldið vegna nemenda á framhaldsskólaaldri. Ríkið var ekki haft með í ráðum um lokunina.