Eyþór Árnason frá Uppsölum í Blönduhlíð kastaði fram limru: Ég heimta minn hræring í dallinn þótt heimurinn sé nærri fallinn og himinninn svitnar og Þorgerður vitnar að hann sé nú heillandi kallinn. Séra Hjálmar Jónsson hlustaði á áheyrilegan…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Eyþór Árnason frá Uppsölum í Blönduhlíð kastaði fram limru:

Ég heimta minn hræring í dallinn

þótt heimurinn sé nærri fallinn

og himinninn svitnar

og Þorgerður vitnar

að hann sé nú heillandi kallinn.

Séra Hjálmar Jónsson hlustaði á áheyrilegan upplestur ljóða hjá Eyþóri, sumra skagfirskra, hjá góðum gestgjöfum, Birni Bjarnasyni og Rut Ingólfsdóttur. Fyrsta bók Eyþórs nefnist „Hundgá úr annarri sveit“. Það varð séra Hjálmari yrkisefni:

Kominn ég á Kvoslæk er

kunnan sælureit.

Mér er sem ég heyri hér

hundgá úr annarri sveit.

„Heimagatan er slétt“ er yfirskrift fallegs brags eftir Ólaf Stefánsson:

Ég finn mig helst við fjallasýn,

er fegrar vorið allt sem grær,

og ilmur berst úr laut og lyngi,

litar heiminn næst sem fjær.

Ég finn mig helst við fjallasýn,

er fer að haust við Norðurpól,

Þar napur vindur að nóttu hvín

og nístir jurt sem áður kól.

Þar vil ég una ævitíð,

yrkja brag og frjóa jörð,

allan heila ársins hring

við árgæsku og veðrin hörð.

Ég finn mig helst við fjallasýn,

fægða tinda og jökulskörð.

Gaman er að glugga í Skagfirskar skemmtisögur sem Björn Jóhann Björnsson tók saman. Gefum honum orðið: „Í Grófargili var stunduð landaframleiðsla forðum daga, eins og á mörgum góðum bæjum í Skagafirði. Um þetta orti Haraldur Hjálmarsson á Kambi, þegar hann hitti Jón Björnsson í kaupfélaginu á Króknum:

Eitt er það sem ég ekki skil,

utan Morgunblaðið,

þeir sem fara í Grófargil

geta ekki staðið.

Skopstæling 21. aldar er yfirskrift þessarar vísu Ágústu Óskar Jónsdóttur:

Sú er nú tíð er sárin ekki gróa

sveitirnar tæmast, akrar verða að móa

Innflutt er brauðið, órækt moldin frjóa

ómenning vex í rökkurlundum skóga.

Benedikt Jóhannsson hugsar til „gestrisni ömmu“:

Hún allan mat sinn bar á borð

og brá á leik í gamni,

svo broshýr hafði á því orð

að ætti meira frammi.