Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Heilbrigði kvenna, málefni Reykjavíkurflugvallar og réttindi á lögbýlum og í landbúnaði. Þessi mál og fleiri voru rædd og ályktað um á aðalfundi Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga sem haldinn var á Grenivík nýverið.
Harma töf
Kvenfélagskonur nyrðra harma þá töf sem orðið hefur á afhendingu á gjöf Kvenfélagasambands Íslands, verkefni sem ber yfirskriftina Gjöf til allra kvenna. Þar er í pakkanum að allir fæðingarstaðir landsins verði komnir með hugbúnað sem vistar fósturhjartsláttarrit og sónarniðurstöður miðlægt.
Sending þessi er komin á nokkrar fæðingardeildir, en skorað er á heilbrigðisyfirvöld að tryggja að afhending geti farið fram á öllum fyrirhuguðum stöðum fyrir lok líðandi árs.
Tryggja verður að flugbrautir í Reykjavík séu opnar fyrir sjúkraflug, segir í ályktun frá Kvenfélagi Reykdæla. Mikilvægt er að hamla ekki aðgengi sjúklinga af landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu enda slíkt í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt.
Konur mæti á fundi
Í tilefni kvennaárs skorar Kvenfélag Fnjóskdæla á konur að gæta réttinda sinna varðandi fjármál og eigur. Tiltekið er að skv. lögum um einkahlutafélög geti fleiri en einn verið skráður fyrir þeim. Oft er þó aðeins einn skráður fyrir lögbýli, þá yfirleitt karlinn. Ef hann fellur frá tekur við flókið ferli fyrir maka að fá prókúruna. Konur eru því hvattar til að skrá sig einnig fyrir búrekstri og mæta til jafns við maka sinn á fundi þar sem málefni er varða líf þeirra og störf eru rædd.