Utanríkisráðherra Þýskalands, Johann Wadephul, sagði í gær ljóst að markmið Pútíns Rússlandsforseta væri að innlima Úkraínu alla í Rússland. Wadephul heimsótti í gær Kænugarð og ræddi þar við kollega sinn Andrí Síbíha um frekari stuðning Þjóðverja við Úkraínu.
Wadephul sagði við það tækifæri að Pútín vildi ekki bara kúga alla Úkraínu heldur vildi hann einnig sá fræjum óttans um alla Evrópu. Tilkynnti hann jafnframt að þýska ríkisstjórnin hefði nú eyrnamerkt um 2 milljarða evra í herstuðning við Úkraínu, og væri megnið af því ætlað til að útvega landinu loftvarnarkerfi og skotfæri.
Síbíha sagði að Úkraínumenn væru þakklátir Þjóðverjum, og að loftvarnarkerfi skiptu nú lykilmáli við að verjast Rússum, en þeir hafa fjölgað loftárásum sínum á Úkraínu síðustu vikur. Þá vilja Þjóðverjar einnig hefja samstarf við Úkraínumenn í hergagnaframleiðslu.
Ummæli Wadephuls féllu sama dag og þýski varnarmálaráðherrann Boris Pistorius heimsótti Kaupmannahöfn til þess að ræða við danska kollega sinn, Troels Lund Poulsen. Tilkynnti Pistorius þar að þýski flotinn myndi á þessu ári hefja aðgerðir á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum, en ástæða þess væri sú að Rússar væru að hervæða norðurslóðir. „Við sjáum auknar aðgerðir rússneskra kafbáta á þessu svæði,“ sagði Pistorius.
Pistorius sagði að flotinn myndi m.a. senda birgðaskipið Berlín til Íslands, Grænlands og Kanada sem hluta af aðgerð sem nefnist „Atlantshafsbjörninn“, en skipið er hannað til þess að sjá öðrum skipum fyrir eldsneyti og vistum.
Þá taka Þjóðverjar í fyrsta sinn þátt í kanadísku heræfingunni Nanook og munu senda kafbátaleitarvélar, kafbáta og freigátur til þess að sýna stuðning sinn við norðurslóðir í verki.