Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Fyrir þremur mánuðum kynnti ríkisstjórnin áform sín um tvöföldun veiðigjalds. Breytingarnar áttu að skila átta til tíu milljörðum í ríkissjóð, til viðbótar við þá tíu sem veiðigjaldið skilar í dag, án þess þó að um skattahækkun væri að ræða

Fyrir þremur mánuðum kynnti ríkisstjórnin áform sín um tvöföldun veiðigjalds. Breytingarnar áttu að skila átta til tíu milljörðum í ríkissjóð, til viðbótar við þá tíu sem veiðigjaldið skilar í dag, án þess þó að um skattahækkun væri að ræða. Að hennar sögn er um leiðréttingu væri að ræða. Undirritaðri er ekki kunnugt um það hvernig tekjur ríkisins eiga að aukast um marga milljarða á einu bretti án þess að álögur séu hækkaðar. Öllum má vera ljóst að um skattahækkun er að ræða og það fyrirvaralaust.

Er nema von að stjórnarandstaðan spyrji spurninga í jafn veigamiklu máli þegar staðreyndir eru á reiki allt frá fyrsta degi?

Segja má að steininn hafi tekið úr þegar bera fór á efasemdum varðandi þær tölur sem lagðar voru til grundvallar veiðigjaldi í frumvarpi ráðherrans, að um töluvert vanmat væri að ræða. Endurmat Skattsins staðfesti þær efasemdir loks og í ljós kom að raunverulegt veiðigjald á þorsk væri um 40% hærra en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Í meðförum atvinnuveganefndar var áætlað veiðigjald lækkað til að bregðast við þessum mistökum. Það er þó enn töluvert hærra en það sem ráðherra taldi sig vera að leggja til í upphafi. Enn eru uppi efasemdir um þá útreikninga sem liggja að baki frumvarpinu og enn skortir allt áhrifamat.

Ríkisstjórnin lét þó átölur um vöntun á heildstæðu áhrifamati ekki á sig fá. Fræðilega séð hefði auðlindagjald, sem leggst á auðlindarentu, nefnilega engin áhrif, fyrirtækin stæðu eftir sem áður mjög vel að vígi í samkeppni við keppinauta sína víða um heim. Hefur forsætisráðherra síðan viðurkennt að rök þessi byggi á huglægu mati. Rökin halda, með öðrum orðum, engu vatni. Sé nokkur enn í vafa um nauðsyn þess að fyrir liggi skýrt og greinilegt áhrifamat í þessu risamáli má rifja upp ummæli sem þá sitjandi forsætisráðherra Inga Sæland lét falla um auknar útsvarstekjur sveitarfélaga samhliða hækkuðu veiðigjaldi. Það er einfaldlega ekki rétt.

Öllum má vera ljóst að áhyggjur stjórnarandstöðunnar af hækkun veiðigjalds eru réttmætar. Ótækt er að mál sem er svo vanbúið og ríkisstjórnin sjálf hefur ekki fullan skilning á fari óbreytt í gegnum þingið. Hið sama má segja um tengingu almannatrygginga við launavísitölu, en fjármálaráðuneytið hefur sjálft sagt að ekki liggi fyrir fullnægjandi greiningar, sér í lagi í tengslum við þær breytingar sem senn taka gildi á örorkulífeyriskerfinu. Í þeim efnum stendur þess utan til að girða fyrir víxlverkun almannatrygginga og örorkulífeyris þannig að umtalsverðum byrðum af nýju örorkukerfi er velt yfir á ellilífeyrisþega. Loks á að hafa vísindalega ráðgjöf að engu verði frumvarp um 48 daga strandveiðar samþykkt. Ríkisstjórninni er í lófa lagt að vinna þessi mál betur og ætti að sjá sóma sinn í því.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Hildur Sverrisdóttir