Björn Diljan Hálfdanarson
bdh@mbl.is
Icelandair er að taka í notkun nýjan Airbus-flughermi. Með tilkomu hermisins eru nú þrír flughermar í notkun á vegum Icelandair hér á landi, allir staðsettir í Hafnarfirði. Um er að ræða mikilvægt skref í þróun og hagræðingu þjálfunarferla flugmanna, að sögn Ásgeirs Bjarna Lárussonar, framkvæmdastjóra CAE Icelandair Flight Training, dótturfélags Icelandair.
Flughermar af þessari gerð eru notaðir í týpuþjálfun, sem er lögbundin þjálfun sem flugmenn þurfa að ljúka áður en þeir mega stjórna tiltekinni tegund flugvéla. Hver flugmaður þarf að ljúka að lágmarki 40 klukkustundum í hermi til að öðlast flugréttindi fyrir viðkomandi flugvél. Til viðbótar þarf að fara í síþjálfun fjórum sinnum á ári, fjórar klukkustundir í senn. Hingað til hefur þurft að sækja þjálfun í Airbus-hermum erlendis, en með nýja herminum skapast veruleg hagræðing fyrir félagið.
Áætlaður kostnaður fyrir hermi af þessari gerð er 10-12 milljónir dollara, eða 1,2-1,4 milljarðar íslenskra króna. Ásgeir bendir þó á að á síðustu 12 mánuðum hafi um helmingur þeirra sem nýttu sér flugherma félagsins verið erlendir flugmenn sem starfa ekki fyrir Icelandair. „Það eru aðilar sem koma utan úr heimi og eru oft í lengri tíma hér á landi til að klára sína týpuþjálfun. Það má áætla að þarna skapist um 3.000 hótelnætur einungis vegna flughermastarfseminnar,“ segir Ásgeir.
Airbus-flughermir
Sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi
Mikil hagræðing skapast með nýja herminum
Um 3.000 fleiri gistinætur á hótelum á svæðinu
Kostnaður hleypur á milljörðum króna
Þrír hermar nú starfræktir á Íslandi
Yfir 40 klukkustunda þjálfun