Santos Cerdán, fyrrverandi ritari spænska Sósíalistaflokksins, var í gær handtekinn vegna spillingarmálsins mikla sem hrellt hefur minnihlutastjórn flokksins undanfarin misseri. Var Cerdán m.a. sakaður um spillingu og peningaþvætti og úrskurðaði dómari málsins í gær að rétt væri að setja Cerdán í gæsluvarðhald, þar sem hætta væri á að hann flýði land eða reyndi að eyða sönnunargögnum í málinu.
Handtakan þykir áfall fyrir Pedro Sánchez forsætisráðherra, en auk Cerdáns hefur Jose Luis Abalos, fyrrverandi samgönguráðherra Spánar, einnig dregist inn í málið, en Abalos var á sínum tíma kallaður hægri hönd forsætisráðherrans. Sánchez hefur sagt að málið tengist sér eða flokknum ekki á nokkurn hátt.