Sögumaður Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis sagði fólki frá stöðum í bænum. Umhverfið er stórbrotið og sagan við hvert fótmál.
Sögumaður Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis sagði fólki frá stöðum í bænum. Umhverfið er stórbrotið og sagan við hvert fótmál. — Ljósmynd/Jóhann Guðni Reynisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi gönguferð var bæði skemmtileg og áhugaverð,“ segir sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur í Grindavík. Undir merkjum þess sem kallað er Sumarmessur á Suðurnesjum var helgistund í Grindavíkurkirkju nú á sunnudagskvöld með gönguferð …

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þessi gönguferð var bæði skemmtileg og áhugaverð,“ segir sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur í Grindavík. Undir merkjum þess sem kallað er Sumarmessur á Suðurnesjum var helgistund í Grindavíkurkirkju nú á sunnudagskvöld með gönguferð um þá staði í bænum sem verst hafa orðið úti í náttúruhamförum á síðustu misserum. Þar liggja sprungur og sjá má hvar glóandi haun hefur farið yfir hús. Þetta eru slóðir sem Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis hf. þekkir vel, en hann var einmitt sögumaður.

Ótrúlegir atburðir gest

Að lokinni göngu var mætt í kirkjuna, þar sem fólk hengdi yfirhafnir sínar til þerris á kirkjubekkjunum, eins og þurfti eftir hellidembu sem gekk yfir í göngutúrnum. Í kirkjunni var helgistund og svo sungið undir hljóðfæraslætti Péturs í Vísi. Kaffi og kleinum í safnaðarheimilinu eftir athöfn voru gerð góð skil.

„Þátttaka í göngunni og athöfninni í kirkjunni var góð. Sérstaklega tók ég eftir því hve vel aðkomufólk mætti, enda margir áfram um að kynna sér og sjá staði þar sem ótrúlegir atburðir hafa gerst,“ segir sr. Elínborg. Hún verður með aðra sumarmessu í þeim anda sem var um helgina síðar, nú í júlímánuði.

Talsvert umleikis í bænum

Þótt Grindavík sé eftir langvarandi náttúruhamfarir breyttur bær frá því sem áður var er þar talsvert umleikis. Nokkrir tugir fjölskyldna hafa gert samninga við Þórkötlu, hið opinbera félag sem leysti til sín fasteignir í bænum, en með slíku getur fólkið dvalið í sínum fyrri húsum. Það fyrirkomulag gildir fram á haust. Þá eru sjávarútvegsfyrirtæki í bænum með starfsemi, bátar koma reglulega inn til löndunar og svo mætti áfram tiltaka ýmislegt. Þá hafa ferðamenn líka í nokkrum mæli viðdvöl á tjaldsvæði bæjarins. Á veitingastöðum má svo fá viðgjörning, sem kemur sér vel því hamfaraslóðirnar draga marga að.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson