Framkvæmdir Grafan mokar grús í veginn sem er niðri við fjöru. Úrbætur eru þarfar á veginum, sem er grófur, mjór og samkvæmt því seinfarinn.
Framkvæmdir Grafan mokar grús í veginn sem er niðri við fjöru. Úrbætur eru þarfar á veginum, sem er grófur, mjór og samkvæmt því seinfarinn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnið er um þessar mundir að nýbyggingu og endurbótum á Örlygshafnarvegi, sem er leiðin að Látrabjargi. Starfsmenn Flakkarans ehf. á Brjánslæk hafa þetta verk á sinni könnu, skv. útboði Vegagerðar þar sem fyrirtækið átti lægsta tilboðið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Unnið er um þessar mundir að nýbyggingu og endurbótum á Örlygshafnarvegi, sem er leiðin að Látrabjargi. Starfsmenn Flakkarans ehf. á Brjánslæk hafa þetta verk á sinni könnu, skv. útboði Vegagerðar þar sem fyrirtækið átti lægsta tilboðið. Það var rúmar 330 millj. kr. sem stóð nánast á pari við áætlun.

Verk þetta er tvíþætt. Fyrri hlutinn er að vegurinn við sunnanverðan Patreksfjörð, milli bæjarins Hvalskers og afleggjarans að kirkjustaðnum Sauðlauksdal, verði tekinn til kosta með endurnýjun, lagfæringu og frágangi með bundnu slitlagi á 4,0 km kafla.

Hinn þátturinn er að vegurinn út að Bjargtöngum, sem liggur um bæjarhlaðið á Hvallátrum, verður færður út fyrir byggðina. Með því er mætt óskum eigenda húsa á Látrabyggðinni sem amast hafa við mikilli umferð. Nýr vegur verður 1,9 km. Er þess vænst að þetta verði öryggisbót og ónæði á Látrum minnki.

Úr Patreksfjarðarbotni út að Látrabjargi eru 59 kílómetrar, þar er vegur sem er grófur og mjór og fyrir ökumenn bíla getur því stundum verið kúnst að mætast þarna. Framkvæmdirnar ættu að bæta eitthvað úr því, enda þótt aðeins lítill hluti leiðarinnar sé endurbættur nú.

„Okkur telst svo til að á ári hverju fari allt að 60.000 manns út að Látrabjargi. Bjargtangar eru áhugaverður staður en vegurinn er klárlega letjandi og í því felst vörn fyrir náttúruna. Við Látrabjarg skapast síður þau vandamál sem stundum verða á stöðum sem eru fjölsóttir,“ segir Jón Björnsson, svæðislandvörður Náttúruverndarstofnunar á sunnanverðum Vestfjörðum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson