Fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn telja að frétt Morgunblaðsins í gær kalli á að atvinnuveganefnd þurfi að taka veiðigjaldafrumvarpið aftur inn í nefnd í miðri 2. umræðu.
Þingmenn bentu á að enn væri kominn fram enn einn annmarkinn á margleiðréttu frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, sem þá kallaði á enn eina leiðréttingu þess. Ekki væri unnt að ljúka 2. umræðu um frumvarpið við svo búið, hvað þá ganga til atkvæða um það.
Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar, taldi það hins vegar ástæðulaust að nefndin fjallaði um „óstaðfestar fréttir“ úr fjölmiðlum.
Í fréttinni var upplýst að samkvæmt frumvarpinu ætti að leggja veiðigjald á fimm fisktegundir – þorski, ýsu, síld, kolmunna og makríl – samkvæmt kerfisbundnu ofmati á hagnaði.
Bergþór Ólason las hluta fréttarinnar í pontu og tilkynnti síðar að hann hefði óskað formlega eftir því að málið yrði tekið fyrir í nefnd. Fleiri þingmenn vöktu athygli á fréttinni í ræðum sínum, en þ. á m. létu Þórarinn Ingi Pétursson og Njáll Trausti Friðbertsson til sín taka. andres@mbl.is