30 ára Andrea Eik er ættuð frá Suðureyri á Súgandafirði og tók út unglingsárin á Ísafirði. Hún flutti síðan í Hafnarfjörð og naut þess að syngja í Flensborgarkórnum og lauk stúdentsprófi frá Flensborg

30 ára Andrea Eik er ættuð frá Suðureyri á Súgandafirði og tók út unglingsárin á Ísafirði. Hún flutti síðan í Hafnarfjörð og naut þess að syngja í Flensborgarkórnum og lauk stúdentsprófi frá Flensborg. Andrea Eik hefur lokið bakkalárgráðu í félagsfræði við Háskóla Íslands og skrifaði lokaritgerð með vinkonu sinni Írisi Maríu um valið barnleysi íslenskra kvenna. Einnig lærði hún skapandi greinar í Háskólanum á Bifröst.

Andrea Eik hefur áhuga á fólki og menningu. Hún er vinmörg og á stóran frændgarð, hún heldur í gömlu góðu vinina í Hafnarfirði og á Vestfjörðum og heldur áfram að kynnast fólki á ferð og flugi. Hún hefur tekið þátt í ýmsum viðburðum og hjálpað listafólki að koma verkum sínum á framfæri hjá listfélaginu Flæði.

Í fyrra flutti hún til Ísafjarðar og heldur áfram að kynnast fólki og landsbyggðinni betur. Hún ætlar að halda upp á afmælið sitt fyrir vestan og boðar til veislu á veitingastaðnum Jötni í Arnardal.