Jóna Ingibjörg Guðmundsdóttir fæddist á Ólafsfirði 4. mars 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 19. júní 2025.
Jóna var dóttir hjónanna Guðmundar Gíslasonar skipstjóra og Jónínu Jónsdóttur húsfreyju. Systkini Jónu voru Sigríður Guðmundsdóttir og Jón Þorkelsson Guðmundsson en auk þess ólst hún upp með systurdóttur sinni, Ásdísi Elfu Jónsdóttur. Þau eru öll látin.
Árið 1954 giftist Jóna Ragnari Júlíussyni skólastjóra, f. 22. febrúar 1933. Þau skildu 1987 en giftust aftur 1998. Jóna og Ragnar eignuðust fimm börn. Þau eru: 1) Guðmundur, f. 14. júní 1956. Eiginkona hans er Jónína Guðrún Jónsdóttir. Sonur þeirra er Kári. 2) Jórunn, f. 28. júní 1957. Eiginmaður hennar var Arno Lederer, látinn 2023. Synir þeirra eru Andri, Sindri, Sölvi og Tjörvi. 3) Magnús, f. 16. maí 1963. Eiginkona hans var Lauren Hauser. Þau skildu en synir þeirra eru Stefán Hauser og Steinn Hauser. 4) Steinunn, f. 29. júlí 1967. Eignmaður hennar var Halldóri Þorsteinn Birgisson. Þau skildu en synir þeirra eru Birgir og Arnar Valur. Sambýlismaður Steinunnar er Pétur Örn Richter. 5) Ragna Jóna, f. 6. júní 1969. Dóttir hennar og Guðmundar F. Árnasonar er Erna Jóna. Barnabarnabörnin eru orðin sjö.
Jóna ólst upp á Ólafsfirði en flutti árið 1956 til Reykjavíkur. Hún gekk í Húsmæðraskólann og starfaði lengst af sem húsmóðir en vann síðar bæði hjá SKÝRR og Ríkisútvarpinu. Hún var ráðin sem forstöðumaður að þjónustuíbúðum aldraðra í Lönguhlíð árið 1989 og vann þar til 2004 þegar hún lét af störfum vegna aldurs. Jóna var alla tíð virk í félagsmálum, sat í stjórnum Orlofsnefndar húsmæðra, Hússtjórnarskólans og Hringsins.
Útför Jónu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 2. júlí 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Látin er tengdamóðir mín Jóna Ingibjörg Guðmundsdóttir. Ég kynntist Jónu fyrir um 50 árum, ég var að gera hosur mínar grænar fyrir frumburðinum hennar, honum Guðmundi. Ég hringdi dyraböllunni á Háaleitisbraut 91, dyrnar opnuðust og mjóróma rödd kallaði „mamma, þetta er stelpan“. Innan skamms var ég vanin á bakdyrnar eins og annað heimilisfólk.
Uppruninn og æskan í Ólafsfirði ásamt náminu í Húsmæðraskólanum í Reykjavík voru eins og rauður þráður í tilveru Jónu. Hún var húsmóðir fram í fingurgóma. Heimilið á nr. 91 var glæsilegt og þar var alltaf allt í röð og reglu. Jóna var hin hagsýna húsmóðir holdi klædd og hafði allar klær úti í hagkvæmum innkaupum. Á heimilinu var allt gert frá grunni. Á haustin var tekið slátur og sultað úr rabarbara og rifsi. Ég kynntist laufabrauði á nr. 91. Fjölskyldan kom saman; þær Jóna og amma Jórunn flöttu út eins og enginn væri morgundagurinn á meðan við hin sátum við útskurðinn. Við höldum enn í þessa hefð.
Líf tengdamömmu umturnaðist í einu vetfangi þegar þau Ragnar skildu. Tilveran eins og hún hafði byggt hana upp varð rústir einar. Öllum að óvörum sté upp úr rústunum miðaldra kona sem setti undir sig hausinn og dreif sig út á vinnumarkaðinn.
Hún réð sig móttökuritara hjá SKÝRR. Góður vinnustaður til að opna þennan nýja kafla í lífinu. RÚV auglýsir starf gjaldkera laust til umsóknar. Jóna taldi sig standa höllum fæti vegna aldurs og menntunar. Hún greip til sinna ráða og fór á fund þáverandi útvarpsstjóra, sem hún þekkti úr pólitíkinni. Jóna var sest í gjaldkerastúkuna innan fárra vikna. Hún undi hag sínum vel hjá RÚV. Þá auglýsir Reykjavíkurborg starf forstöðumanns íbúða aldraðra við Lönguhlíð. Hún fór á fund þáverandi borgarstjóra, Davíðs Oddssonar, en þeim var alltaf vel til vina. Jóna tók við Lönguhlíðinni um haustið. Hún kom sér vel við samstarfsfólkið, íbúana og aðstandendur svo og yfirmenn borgarinnar. Úr
fjármáladeild borgarinnar heyrði ég að það stemmdi alltaf allt upp á punkt og prik í Lönguhlíðinni. Það voru
þung spor þegar hún lét af störfum fyrir aldurs sakir sjötug enda naut hún starfsins í Lönguhlíð.
Nú tekur við nýr kafli í lífinu, tómstundir og áhugamál. Jóna var í kvenfélaginu Hringnum og gat nú léð félaginu tíma sinn og gerði af miklu örlæti. Hún sat í stjórn Hússtjórnarskólans í Reykjavík um árabil og hafði mikið yndi af. Jóna var með árskort í leikhúsunum og Sinfóníunni. Endrum og sinnum naut ég góðs af því ef einhver heltist úr lestinni á þessum viðburðum. Forstöðumenn sem unnið höfðu saman héldu hópinn og hittust mánaðarlega. Svo er það saumaklúbburinn, þessi þétti vinkvennahópur, þar var valin kona í hverju rúmi. Þá kom covid og þessi samskipti þurrkuðust út með einu pennastriki. Fólk á aldur við Jónu einangraðist inni á heimilunum. Heilsan gaf sig þegar leið að níræðu og hún varð ófær um að búa heima. Jóna fékk pláss á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni en þar hlaut hún einstaka umönnun og skal það þakkað hér. Að leiðarlokum þakka ég samfylgdina og bið Guð að blessa minningu hennar.
Þín tengdadóttir,
Jónína G. Jónsdóttir.
Það er erfitt að ætla sér að segja frá ömmu minni í stuttri minningargrein þar sem hún var, fyrir mér, einstök á alla kanta. Amma laðaði fólk að sér hvert sem hún fór, hún eignaðist vini á hinum ólíklegustu stöðum, til að mynda kom hún heim úr fiskbúðinni einn afmælisdaginn sinn með afmæliskort frá fisksalanum, áritað „til mömmu“. Eins og ekkert væri eðlilegra. En ef maður þekkti ömmu var það kannski bara mjög eðlilegt þar sem hún var óhrædd við að tala um hvað sem var við hvern sem var og hikaði aldrei við að stoppa fólk til þess að spjalla, jafnvel þótt það væri henni algjörlega ókunnugt.
Amma lét líka ekkert stoppa sig. Ég man eftir að fyrir um níu árum hringdi hún í mig, rétt eftir hádegi á laugardegi, og bað mig að fara með sér upp á slysavarðstofu, hún hefði nefnilega dottið deginum fyrr og væri viss um að það „væri betra að láta kíkja á fótinn“. Ég spurði af hverju hún hefði ekki farið beint upp á slysó eftir fallið, þá var svarið að hún hefði átt miða í leikhús um kvöldið og ekki viljað missa af sýningunni! – Þegar búið var að röntgenmynda fótinn var henni strax skellt í hjólastól því augljóst var að hún var með þrjú brot í fætinum. En hafði samt þraukað í sólarhring, gangandi á brotunum til að missa ekki af leikhúsinu. Læknirinn bað hana næst um að vinsamlega fá miða á seinni sýningu og koma strax á bráðavaktina. Hennar svar var: „Þetta blessaðist samt allt, er það ekki?“ Þannig var amma, hún gat gert allt sem hún ætlaði sér því hún trúði því að þetta myndi allt blessast einhvern veginn.
Hún amma mín hafði líka ótrúlega getu til að breyta öllu neikvæðu í lífinu upp í eitthvað jákvætt með því að einblína á það góða sem kæmi út úr erfiðum aðstæðum. Eins leið
og ég er yfir því að geta ekki aftur knúsað ömmu í þessu lífi get ég ekki annað en tekið blað úr hennar bók og einblínt á hvað ég var heppin hafa fengið að alast upp hjá sterkri, sjálfstæðri og, umfram allt, góðri konu. Ég stend sjálfa mig oft að því að segja sömu peppandi frasa við krakkanna mína og amma sagði við mig þegar ég var lítil. Ég vona því innilega að jákvæði andinn hennar muni lifa áfram með mér og þeim.
Takk fyrir allt amma mín.
Ég hlakka svo mikið til að hitta þig aftur einhvern tímann seinna.
Erna Jóna
Guðmundsdóttir.
Við minnumst Jónu Ingibjargar Guðmundsdóttur með hlýju og þakklæti. Frú Jóna, eins og við kölluðum hana jafnan, var mamma Magga, æskuvinar Snæja, sem var heimagangur á heimili Jónu og Ragnars á Háaleitisbrautinni. Síðar lágu leiðir Sigrúnar og Jónu saman á vettvangi Kvenfélagsins Hringsins. Hún sýndi okkur alla tíð umhyggju og hlýju. Það yljaði um hjartarætur að kveðjast eftir fundi hjá Hringnum, því þá sagði hún gjarnan: „Ég bið að heilsa honum Snæja mínum,“ eða „Kysstu hann Snæja minn frá mér.“ Þessum kveðjum var ætíð komið samviskusamlega til skila.
Á erfiðum tímum þegar foreldrar Snæja féllu frá, langt fyrir aldur fram, reyndust Jóna og Ragnar honum afar vel og sýndu samúð, umhyggju og hjálpsemi í verki.
Fallegasta jólakveðjan var frá frú Jónu. Á hverju ári fengum við Hringskort með handskrifaðri kveðju og öllum góðum óskum. Þegar við giftum okkur gaf hún okkur fallega gjöf sem við eigum enn og minnir okkur á góðvild hennar og rausnarskap.
Við sendum Magga og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Snæbjörn (Snæi)
og Sigrún.