Veiðisvæðið Veiðisvæðið við Iðu er neðan við staðinn þar sem Litla-Laxá og Stóra-Laxá falla út í Hvítá í Árnessýslu.
Veiðisvæðið Veiðisvæðið við Iðu er neðan við staðinn þar sem Litla-Laxá og Stóra-Laxá falla út í Hvítá í Árnessýslu. — Morgunblaðið/oej
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sérstök matsnefnd sem starfar skv. lögum um lax- og silungsveiði hefur nú til meðferðar deilu Stóru-Laxárdeildar Veiðifélags Árnesinga og eigenda veiðiréttar á Iðu í Biskupstungum. Hverfist deilan um hvar ós Stóru-Laxár er, en ævinlega hefur verið…

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Sérstök matsnefnd sem starfar skv. lögum um lax- og silungsveiði hefur nú til meðferðar deilu Stóru-Laxárdeildar Veiðifélags Árnesinga og eigenda veiðiréttar á Iðu í Biskupstungum. Hverfist deilan um hvar ós Stóru-Laxár er, en ævinlega hefur verið litið svo á að ósinn sé þar sem Stóra-Laxá mætir Hvítá, enda segir í lögum um lax- og silungsveiði að árós sé þar að finna „þar sem straumur þverár sameinast straumi höfuðár“.

Eitthvað virðist þetta málum blandið ef marka má kröfu Stóru-Laxármanna um að gert verði nýtt ósamat, en þeir krefjast þess að veiðisvæðið við Iðu teljist hluti af ós Stóru-Laxár og falli því undir yfirráð félagsins. Iðumenn krefjast þess aftur á móti að ós Stóru-Laxár sé þar sem hann hafi alltaf verið, þ.e. þar sem áin fellur í Hvítá.

Hefur leigutaki veiðiréttar í Stóru-Laxá haft sig mjög í frammi á veiðisvæðinu við Iðu og gert þar veiðimönnum lífið leitt. Þannig var lögregla kölluð til á Iðu þegar veiðar þar hófust 21. júní sl.

Rétt horn á stefnu Hvítár

Staðhættir á svæðinu eru þannig að eftir að Tungufljót sameinast Hvítá rennur áin úr norðri fram hjá Auðsholti í Hrunamannahreppi uns hún tekur hornréttan sveig til vesturs og fellur með landi Iðu. Þar sem Hvítá beygir falla til hennar tvær ár, annars vegar Litla-Laxá og hins vegar Stóra-Laxá, og neðan ármótanna mynda þær saman vatnamót bergvatns við jökulvatn Hvítár. Vatnamótin eru skýr nokkur hundruð metra niður eftir Hvítá og hverfa ekki fyrr en við brúna yfir Hvítá sem kennd er við Iðu. Segja gamlir Iðuveiðimenn að menn vaði út í Stóru-Laxá, kasti út í Hvítá en laxinn taki síðan agnið í Litlu-Laxá.

Litla-Laxá er nokkru minna vatnsfall en Stóra-Laxá, en hún er þó nær því en Stóra-Laxá að falla í stefnu Hvítár þegar árnar koma saman, en Stóra-Laxá myndar nánast rétt horn á stefnu Hvítár þegar árnar koma saman.

Veitt hefur verið á þrjár stangir á Iðu svo áratugum skiptir, en saga stangveiða þar spannar nær heila öld og ávallt hefur verið talið að ós Stóru-Laxár og Hvítár sé við ármynni bergvatnsárinnar. Það er fyrst nú sem brigður eru bornar á það.

Stóra-Laxá þverá Litlu-Laxár?

Nú er ósamatsnefndin að störfum og áætlað er að hún kunngjöri niðurstöðu sína í ágreiningsmálinu fyrir 20. júlí nk. Verður þá kveðinn upp úrskurður um hvar ós Stóru-Laxár raunverulega er. Eigendur Litlu-Laxár eiga ekki aðild að málinu. Ós Litlu-Laxár er í eigu jarðarinnar Auðsholts og hafa Auðshyltingar skilað inn greinargerð um sína afstöðu til þessarar deilu. Þar kemur meðal annars fram að þeir telji að Stóra-Laxá sé í raun þverá Litlu-Laxár og þannig falli þær sameinaðar í Hvítá.

Fátt er um fordæmi þegar kemur að því að skera úr um hvar árósinn er þegar straumur þverár sameinast straumi höfuðár. Til eins fordæmis má þó líta í þessu sambandi, þar sem staðhættir eru ekki ólíkir þeim sem eru við Iðu.

Í september 2013 var kveðinn upp úrskurður um ós Flókadalsár í Borgarfirði, gagnvart Hvítá og eftir atvikum Reykjadalsá.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir m.a. að samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði „afmarkast ós í á við þann stað þar sem straumur þverár sameinast straumi höfuðár. Með vísan til þessa líta matsbeiðendur [þ.e. eigendur tveggja jarða við ós Flókadalsár] svo á að ós Flókadalsár sé þar sem straumar Flókadalsár og Hvítár komi saman,“ segir þar. Í málinu héldu eigendur jarðarinnar Kletts og Fiskiræktar- og veiðifélag Reykjadalsár því fram að „straumur Flókadalsár falli þvert á straum Reykjadalsár og að rennsli þessara vatnsfalla sé með þeim hætti að Reykjadalsá sé höfuðáin og Flókadalsá þveráin sem í hana renni. Ós Flókadalsár sé því þar sem hún renni í Reykjadalsá og ós Reykjadalsár þar sem hún renni í Hvítá,“ að því er fram kemur í úrskurðinum.

Kemst matsnefndin síðan að þeirri niðurstöðu að Flókadalsá sé í raun þverá Reykjadalsár, þar sem Flókadalsá falli þvert á Reykjadalsá í ármótunum. Eftir að árnar komi saman renni Reykjadalsá í sömu rennslisstefnu, en straumur Flókadalsár sveigi til og falli eftir það í rennslisstefnu Reykjadalsár.

„Úrskurðast að ós Flókadalsár gagnvart Reykjadalsá sé þar sem árnar koma saman og straumur Flókadalsár byrjar að sveigjast í stefnu Reykjadalsár,“ segir í niðurstöðu matsnefndarinnar.

Neðan óssins þar sem Reykjadalsá og Flókadalsá falla í Hvítá í Borgarfirði er fornfrægt veiðisvæði, Svarthöfði, en þar mynda fyrrgreindar bergvatnsár vatnamót í Hvítá með ekki ósvipuðum hætti og Laxárnar báðar, sú Stóra og Litla, mynda vatnamótin við Iðu.

Ekkert skal fullyrt um það hvort aðstæður við Svarthöfða og Iðu séu fyllilega sambærilegar, en líkindin eru eigi að síður umtalsverð.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson