Ferðagarpar Frá vinstri: Einar Sveinbjörnsson og Sveinn Gauti Einarsson frá Bliku og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.
Ferðagarpar Frá vinstri: Einar Sveinbjörnsson og Sveinn Gauti Einarsson frá Bliku og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Frá og með deginum í dag verða veðurspár fyrir Laugaveginn, leiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur, aðgengilegar á vefnum á blika.is. Ferðafélag Íslands og Veðurvaktin, sem heldur úti fyrrgreindum vef, eiga samstarf um þessa þjónustu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Frá og með deginum í dag verða veðurspár fyrir Laugaveginn, leiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur, aðgengilegar á vefnum á blika.is. Ferðafélag Íslands og Veðurvaktin, sem heldur úti fyrrgreindum vef, eiga samstarf um þessa þjónustu. Hjá Veðurvaktinni var þróað líkan til spágerðar fyrir nákvæmlega þetta svæði, en þarna er stuðst við hrágögn sem gervigreind vinnur úr, reiknar og skrifa texta um hvernig viðri á fjöllum næstu daga.

„Veðurspár af Laugaveginum eru mikilvægar, svo margir fara þessa leið um hálendið þar sem jafnvel má lenda í hríð um hásumar,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ. „Á Laugavegssíðu bliku verða spár veðurfræðinga. Einnig, þegar svo ber undir, birtast upplýsingar frá skálavörðum um aðstæður, séu þær viðsjárverðar.“

Á Blikuvefnum munu birtast spár um hita, úrkomu og vindaspá fyrir hvern legg leiðarinnar sem eru Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Álftavatn, Emstrur og Þórsmörk. Spáin uppfærist þrisvar á dag, það er kl. 8, 12 og 20. Nákvæmni verður meiri eftir því sem gervigreind vindur fram, segir Sveinn Gauti Einarsson hjá Veðurvaktinni.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson