Oddný Erla Valgeirsdóttir fæddist 19. desember 1945 í Reykjavík. Hún lést 23. júní 2025.

Foreldrar hennar voru Valgeir Sigurðsson, f. 6.11. 1909, d. 14.3. 1964, og Lovísa Kristín Pálsdóttir, f. 7.9. 1913, d. 26.4. 1987. Systkini hennar sammæðra eru Ásta Halldórsdóttir, f. 3.2.1932, d. 30.10. 1998, Ragnar Halldórsson, f. 25.10. 1936, d. 25.2. 2008, og Sverrir Halldórsson, f. 16.11. 1938.

Maki Oddnýjar er Valdimar Þorvaldsson, f. 24.11. 1954, þau giftu sig 17.6. 2005. Börn Oddnýjar eru: 1) Valgeir Helgi Barðason, f. 10.1. 1965. Maki Vigdís Guðbrandsdóttir. 2) Ingibjörg Kristín Barðadóttir, f. 15.3. 1969. Maki Bjarni Ingi Björnsson. 3) Lovísa Eva Barðadóttir, f. 1.6. 1972. 4) Ingimundur Barðason, f. 3.5. 1973. Maki Elva Magnúsdóttir. Barnabörnin eru 11 og barnabarnabörnin eru einnig 11.

Oddný ólst upp í Kópavogi en flutti vestur á Tálknafjörð 1966 og bjó þar til ársins 1978, þá fluttist fjölskyldan á Akranes.

Oddný Erla vann við ýmis störf, allt frá fiskvinnslu, sem starfsstúlka á sjúkrahúsinu, skrifstofustarf hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og svo á skrifstofu starfsmannafélags Akraneskaupstaðar. Hún fór í háskólanám árið 2002, í leikskóla- og kennslufræði, og útskrifaðist með hæstu einkunn. Kenndi í Grundaskóla, sem hún hafði líf og yndi af, og svo starfaði hún á leikskólanum Akraseli þar til hún hætti störfum.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 2. júlí 2025, klukkan 13.

Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju.

Á mánudagsmorgni, 23. júní 2025, kvaddi elsku mamma okkar, amma og vinkona, eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Þrátt fyrir veikindin hélt hún reisn, hlýju og gleði til loka – eins og henni einni var lagið.

Mamma var einstök kona sem gaf af sér alla tíð. Hún átti sér þann draum að verða leikskólakennari og lét hann rætast á fullorðinsárum – sannkölluð fyrirmynd í dugnaði og seiglu. Líf hennar snerist um börnin, og ekki aðeins okkur fjögur systkinin, heldur líka ellefu barnabörnin sem hún elskaði af öllu hjarta og passaði eins og þau væru hennar dýrmætustu gersemar. Hún missti helst
ekki af neinu sem tengdist þeim.

Fjölskyldan var henni lífið sjálft. Hún var okkar helsti stuðningsmaður, mætti á fótboltaleiki, hvatti úr stúkunni og klappaði af lífs og sálar kröftum og öskraði úr sér lungun (við vorum ekki of glöð með það) – hvort sem það voru börnin eða barnabörnin að spila. Enginn klappaði hærra eða elskaði dýpra.

Í mars 2024 fékk hún greiningu um lungnakrabbamein. Hún kláraði meðferð í september og við vonuðum að betri tímar væru fram undan. En í desember kom í ljós að krabbinn hafði dreift sér í heila. Þrátt fyrir það hélt hún áfram að elska, hlæja og hlusta – með ótrúlegri nærveru. Hún gaf sér alltaf tíma fyrir fólk, sama hvernig henni leið. Vinir okkar urðu fljótt vinir hennar – því svona var hún, alltaf með opið hjarta og opinn faðm.

Systkinadætur hennar komu oft vestur og nutu samverunnar með henni, og mamma átti líka stóran hluta í þeim. Hún var sú sem sameinaði fjölskylduna, alltaf með hlýtt orð, bros og ráð. Hún gerði alla í kringum sig að betri útgáfu af sjálfum sér.

Nú er orðið tómt í hjörtum okkar. Tómarúm sem erfitt verður að fylla. En á sama tíma erum við þakklát – fyrir allt sem hún gaf, fyrir hverja minningu, og fyrir ástina sem hún stráði um sig alla tíð.

Við elskum þig, mamma. Og þú munt alltaf lifa með okkur – í hjörtum okkar, í brosi barnanna, og í minningunum sem við munum geyma að eilífu.

Valgeir, Inga, Lovísa og Ingimundur.

Það er mjög skrýtið að hugsa til þess að Oddný sé ekki lengur meðal okkar. Oddný var bæði mágkona mín og góð vinkona. Hún kom inn í fjölskylduna okkar 1979. Þá kom Valdi bróðir með hana og krakkaskarann í ónýta Landrovernum sínum frá Tálknafirði. Þau fluttu í hús sem mátti muna sinn fífil fegurri, en það var ekki vandamál hjá Oddnýju.

Áður en maður vissi af var hún búin að breyta húsinu í höll.

Ég flutti í húsið á móti og kom það sér vel að geta leitað til hennar og Valda með hin fjölbreyttustu vandamál. Það voru reyndar ekki vandamál, heldur bara lausnir … Það kom sér vel fyrir dóttur mína að eiga þau að þegar mamman var að vinna vaktavinnu og hún mikið ein. Henni var alltaf vel tekið, meira að segja þegar hún vakti alla fjölskylduna um helgar …

Oddný var mjög laghent og reyndar ótrúlega orkumikil. Hún útbjó meðal annars þennan flotta garð og pall sem rúmar mjög marga. Hún var ótrúleg þegar kom að garðyrkjunni, fannst það ekki mikið mál að stússast aðeins þótt hún væri í gifsi með handleggsbrot. Hún datt í tröppu við trjáklippingar.

Ég man vel eftir öllum ferðunum sem við fórum saman í IKEA þegar ég flutti aftur í götuna hennar, það var alveg ótrúlegt hvað henni tókst að troða miklu í litla bílinn minn. Það er enn hlegið að því vegna þess að hún lá í hnipri aftur í.

Það munaði helling um hjálpsemi hennar þegar kom að því að innrétta.

Börnin, barna- og langömmubörnin voru hennar líf og yndi. Hún passaði og prjónaði og tók gjarnan virkan þátt í lífi þeirra. Lét sig ekki vanta á íþróttaviðburði þar sem fjölskyldan var.

Ég hef stundum borið Oddnýju saman við ítölsku ömmurnar sem við sjáum í sjónvarpinu, alltaf á fullu og alltaf brosandi.

Við munum öll sakna Oddnýjar mikið. Það hjálpar reyndar helling að við eigum góðar minningar um hana sem við getum yljað okkur við.

Ég vil senda Valda og allri fjölskyldu Oddnýjar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Erla.