Kolbrún Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 2. júlí 1945. Hún hefur búið í Hafnarfirði allan sinn aldur, fyrst í vesturbænum en nú í norðurbæ Hafnarfjarðar.
„Ég byrjaði skólagönguna sjö ára gömul í Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem er nú Lækjarskóli,“ og hún segir lífið í Hafnarfirði hafa verið dásamlegt. „Ég átti heima alveg niðri við sjóinn. Það var slippur í bænum og við krakkarnir vorum mikið að veiða niðri á bryggju.“
Kolbrún útskrifaðist sem gagnfræðingur frá Flensborgarskóla árið 1962. Sama ár fór hún að vinna í Samvinnusparisjóðnum í Hafnarstræti og síðan Bankastræti í Reykjavík en við flutninginn breyttist nafn bankans í Samvinnubankinn.
„Samvinnubankinn opnaði síðan útibú í Hafnarfirði og ég var fyrsti starfsmaðurinn þar og vann þar til 1971. Var þá orðin gift kona og átti tvær dætur, Ágústu og Soffíu, með eiginmanni mínum Steina. Síðan kom Jón Vignir árið 1979.“
En lífsstarf Kolbrúnar einkenndist líka af fjöldskyldufyrirtæki föður hennar, JVJ ehf., þar sem hún tók við stjórnartaumunum af föður sínum og síðar fyrirtækinu JRJ ehf., sem hún og bróðir hennar Jón Rúnar stofnuðu og unnu eingöngu fyrir Íslenska álfélagið í Straumsvík, þar til þau seldu fyrirtækið 2015.
„Þegar ég hætti í Samvinnubankanum 1971 fór ég að vinna með pabba og varð síðan framkvæmdastjóri fyrirtækisins.“ Hún segir að það hafi verið rosaleg vinna að stýra stóru fyrirtæki, en þau voru með allt að 150 manns í vinnu. „Það gekk samt allt vel og ég fann aldrei fyrir því að það væri erfitt að vera kona í þessum bransa,“ segir hún og bætir við að hún hafi lært mikið af föður sínum í gegnum árin.
Kolbrún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á stjórnmálum, en segir það þó ekki hafa komið frá heimilinu því þar hafi ekki verið mikið rætt um pólitík. „En ég man eftir að ég var þrettán ára niðri í Bæjarbíói að fylgjast með stjórnmálafundi og fannst þetta mjög spennandi.“ Hún lét ekki sitt eftir liggja og var virk í pólitísku starfi Sjálfstæðisflokksins um margra ára skeið. Hún var varaþingmaður á árunum 1989 til 1991 og kom öll árin inn sem varaþingmaður flokksins. Hún var formaður Bandalags kvenna í Hafnarfirði í nokkur ár og formaður sjálfstæðisfélagsins Vorboða í Hafnarfirði, og átti sæti í fjölmörgum stjórnum og ráðum.
Kolbrún heldur sér mjög vel. „Ég þakka hundunum mínum svo margt, t.d. heilsuna mína, og í gegnum þá eignaðist ég frábæra vini á hundasýningum bæði innanlands og erlendis. Hundarnir unnu marga titla og Tíbráar Tinda Rúbin var stigahæsti öldungur ársins 2019 ásamt því að vera sigurverari sem besti hundur sinnar tegundar ár eftir ár. Toyway Tim Bu átti líka marga góða sigra. Ég kvaddi þá báða fyrir tveimur árum og sakna þeirra alla daga.“
Ekki má gleyma ævintýrunum sem einkennt hafa Kolbrúnu og Steina alla tíð. Þau sigldu saman um öll heimsins höf og nutu þess að ferðast víða. „Við eigum líka athvarf í sumarbústaðnum í Grímsnesinu sem er okkar perla, friðsæll dvalarstaður og samverustaður fjölskyldunnar.“
Þá er Kolbrún enn í sambandi við skólafélagana frá Flensborgarárunum. „Frá 1962 höfum við farið einu sinni á ári í ferðalög um landið og einnig til Færeyja og þegar við hættum að vinna fórum við að hittast einu sinni í mánuði í kaffi og gerum enn. Við hittumst alltaf í GKG-salnum hjá henni Jönu. Núna í haust ætlum við saman til Ítalíu og makar hafa alltaf verið boðnir með,“ segir hún og segir að tengslin við vini sem maður eignist í gegnum tíðina séu ómetanleg.
Fjölskylda
Eiginmaður Kolbrúnar er Steingrímur Magnússon, f. 14.10. 1945, fyrrverandi lögreglumaður og þau búa í Hafnarfirði. Foreldrar Steingríms voru hjónin Ágústa Steingrímsdóttir húsmóðir, f. 15.6. 1918, d. 18.1. 2016, og Magnús Már Sigurjónsson, forstöðumaður hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, f. 21.10.1916, d. 29.10. 2005. Börn Kolbrúnar og Steingríms eru: 1) Ágústa, sérfræðingur hjá Toyota, f. 14.9. 1964, í sambúð með Þorbirni Helga Þórðarsyni framkvæmdastjóra og þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. 2) Soffía, hjúkrunarfræðingur á Borgarspítalanum, f. 2.12. 1970. Hún er gift Stefáni Jónssyni leikstjóra. Soffía á tvö börn með Ragnari Agnarssyni, fyrri eiginmanni, og eitt barnabarn. 3) Jón Vignir, verkstjóri hjá Malbikstöðinni, f. 14.7. 1979, í sambúð með Sigurlaugu Ómarsdóttur, sérfræðingi hjá Rio Tinto. Þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn.
Bræður Kolbrúnar eru: Jón Rúnar, f. 2.7. 1940; Bragi Vignir, f. 24.7. 1951; og Sigurður Ólafur, f. 25.11. 1956.
Foreldar Kolbrúnar voru Jón Vignir Jónsson verktaki, f. 24.7. 1919, d. 21.7. 2004, og Soffía Jónsdóttir húsmóðir, f. 22.3. 1918, d. 18.10. 2012.