Sýningin Fengur – Ný aðföng var nýverið opnuð í Þjóðminjasafni Íslands og hefur að geyma úrval nýrra aðfanga frá árunum 2020-2024. Aðföng eru samheiti yfir alla muni sem berast til Þjóðminjasafnsins og bætast við safnkostinn ár hvert. Sumt er fengið að gjöf á meðan öðru er safnað á skipulegan hátt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Á sýningunni með þessum nýjasta safnkosti Þjóðminjasafnsins megi til dæmis sjá höfuðkúpbrot sem fundust í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu árið 2023 og vöktu töluverða fjölmiðlaumfjöllun, ljósmynd af fyrstu þyrlunni sem flutt var til Íslands, einstaka 17. aldar flauelshúfu frá Þingeyrum, vandaðan taflmann úr ýsubeini frá 12.-13. öld og aðra áhugaverða gripi. Safnkostinn má einnig skoða á sarpur.is. Sýningin, sem er á annarri hæð Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu, mun standa til ársloka og er opin alla daga á opnunartíma safnsins.