Heiðar Ásberg Atlason
Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við óvissuna um hvar Geirfinn – já og Guðmund – væri að finna. En ég viðurkenni að ég deili þeim hugsunum með fjölda fólks að það sé óviðunandi að þeir séu hreinlega týndir og tröllum gefnir og hafi verið í hálfa öld. Þó trúi ég bæði á álfa og tröll. Hvað varð eiginlega um þessa menn og hver ber ábyrgð á hvarfi þeirra?
Ég hóf nám í lagadeild Háskóla Íslands haustið 1995 og þar lærði ég sakamálaréttarfar og refsirétt hjá alveg ágætum kennurum lagadeildar. Í náminu fór lítið fyrir umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálin, sem þó voru á þeim tíma, áður og síðar líka, stærstu sakamál íslenskrar réttarsögu.
Ég veit ekki af hverju, en ég held að kennarar í þessum fögum hafi ekki hjálpað til, með ágætri virðingu fyrir þeim, sem flestir voru ljómandi fínir. En kennararnir höfðu ekki minnsta áhuga á því að ræða Guðmundar- og Geirfinnsmálin við unga áhugasama nemendur. Kannski hefðu nemendurnir spurt of margra spurninga eða notað of mikla gagnrýna hugsun á þau réttarmorð sem voru framin á þeim einstaklingum sem voru dæmdir fyrir að drepa þá? Kannski hefur umfjöllun um málin breyst í fyllingu tímans. Vissulega eru liðin tæp 30 ár síðan ég byrjaði í lagadeildinni.
Ég hef lesið mikið magn gagna um þessi mál. Ekki einungis dómana sjálfa heldur nokkuð af þeim gögnum sem hafa verið lögð fram í þeim og verið opinberlega birt. Ég er ekki neinn sérfræðingur í sakamálum. En við getum kallað mig áhugamann um Guðmundar- og Geirfinnsmálin með lögfræðilegan bakgrunn.
Í stuttu máli var ungt fólk dæmt til langrar fangelsisvistar fyrir að bana tveimur algjörlega óskyldum mönnum sem höfðu engin tengsl. Þetta var á grundvelli þvingaðra játninga eins og síðar kom á daginn og var dregið til baka með síðari dómi – áratugum síðar. Hræðilegt mál frá byrjun til enda og ætti að vera öllum til varnaðar að svona lagað megi aldrei endurtaka sig í réttarríki.
Voru umræddum einstaklingum og afkomendum í einhverjum tilvikum dæmdar miskabætur. Var ríkisvaldið með því að laga til eigin samvisku vegna mistaka bæði dóms- og framkvæmdavalds við meðferð málanna. Er það í sjálfu sér vel; samviskubitið hjá íslenska ríkinu verður minna á eftir. En brotið verður auðvitað aldrei leiðrétt, hvað sem líður einhverjum bótum til málamynda.
En hvað leiddi til þess að mistök voru gerð og líf ungs fólks eyðilagt?
Það hafa ýmsar kenningar verið settar á loft um af hverju saklaust ungt fólk var sett í fangelsi fyrir að drepa hina óskyldu menn Guðmund og Geirfinn, sem enginn veit ennþá hvað varð um. En það eru uppi háværar kenningar um að aðilar, tengdir réttarvörslukerfinu um lengri tíma, hafi afvegaleitt lögreglu (sem þeir stýrðu) frá fyrsta degi og hreinlega ýtt rannsókn málanna út í skurð – þaðan sem málið komst aldrei. Það er þar ennþá. Úti í skurði.
Í nóvember sl. var gefin út bók um málið, Leitin að Geirfinni. Það er virkilega áhugaverð bók. Í byrjun las ég um fimmtung af henni eitt kvöldið og lagði hana svo frá mér. Síðar kláraði ég bókina og hef lesið hana aftur eftir það auk þess að hafa lesið hinn svokallaða aukakafla, 13. kafla, sem hefur lekið um alnetið eftir útgáfu en er ekki hluti sjálfrar bókarinnar. Ég er algjörlega í sjokki eftir þennan lestur. Það þarf að rannsaka þetta mál upp á nýtt og þá frá nýrri hlið.
Málið er í uppnámi. Það hafa verið settar fram alvarlegar ásakanir, bent á tiltekna menn og færð heildstæð og góð rök fyrir því að tilgreint fólk hafi framið réttarbrot við rannsókn umræddra mála. Komið ungu fólki saklausu í fangelsi gegn betri vitund; borið fram rangar sakargiftir og misfarið með gögn og ég veit ekki hvað annað.
Þessar ásakanir voru settar fram, og rökstuddar með ítarlegum hætti, fyrir meira en hálfu ári. Ekkert – eða í það minnsta ákaflega lítið – hefur gerst síðan. Af hverju? Er kerfið ennþá að verja sjálft sig eða vilja yfirvöld raunverulega ekki skoða þetta betur? Tvöfalt mannshvarf og/eða mannslát er ennþá óleyst eftir sýknudóma Hæstaréttar fyrir nokkrum árum.
Af hverju stíga yfirvöld ekki inn í málið og skoða það áfram? Eða segja af hverju það þarf ekki, sem væri það minnsta sem hægt væri að gera? Af hverju er þetta ekki skoðað í þeim tilgangi að varpa ljósi á hvað varð um þá Guðmund og Geirfinn á sínum tíma og af hverju ungt fólk var svipt allri æsku sinni til að loka málinu?
Það þarf að skoða Guðmundar- og Geirfinnsmálið (málin) aftur og það þarf að skoða allt uppleggið frá grunni. Það þarf að rannsaka þátt lögreglufulltrúa og annarra sem fóru með rannsókn og umsjón málsins frá byrjun. Það þarf að ræða við vitni, aðila og þátttakendur í málinu og horfa kalt yfir öll gögn þess. Það þarf að klára þetta. Það er galið að gera ekkert.
Dómsmálaráðherra og fyrrverandi saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara er alltof klár til að gera ekkert. Boltinn er þar. Yfir til þín, Þorbjörg.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður.