Noregur
Christina Paulos Syversen
TV Norge
Norska kvennalandsliðið mætir til Sviss í þeirri von að geta sýnt sitt rétta andlit og gert betur en á síðustu tveimur stórmótum, sem reyndust gífurleg vonbrigði og verður minnst fyrir tvennt.
Á EM 2022 tapaði Noregur 8:0 fyrir Englandi og komst ekki upp úr riðlinum og á HM ári síðar var ein af stjörnum Barcelona, Caroline Graham Hansen, sett á varamannabekkinn í öðrum leik riðilsins og ætlaði að hjóla í þjálfarateymið eftir lokaflautið. Liðið komst upp úr riðlinum en sýndi lina frammistöðu í 3:1-tapi fyrir Japan í 16-liða úrslitum.
Að mörgu leyti er um nýtt upphaf að ræða fyrir þetta lið: Nýr þjálfari, Gemma Grainger, er tekinn við og styðst við nýtt leikkerfi. Það sem meira er og er líkast til mikilvægast hóf hún uppbyggingu á nýjum kúltúr sem byggist á samheldni. Ári síðar færði hún Ödu Stolsmo Hegerberg fyrirliðabandið og er hún harðákveðin í að leiða liðið til betri árangurs í sumar.
Frábært að fá traustið
„Vegferð mín með landsliðinu hefur verið ansi löng,“ sagði Hegerberg þegar hún var skipuð nýr fyrirliði liðsins og tók við bandinu af Maren Mjelde. „Það er frábær tilfinning að standa hér og fá þetta traust frá Gemmu.“
Þrátt fyrir að andinn sé góður og hópurinn virðist vinna betur saman hefur þeim gengið erfiðlega að finna taktinn á vellinum, sérstaklega í sókninni. Í sex leikjum sínum í Þjóðadeildinni skoraði liðið aðeins fjögur mörk og vann einungis tvo leiki. Grainger hefur þó ekki áhyggjur. „Þetta veldur mér ekki hugarangri. Þetta snýst um að vinna leiki og það er það sem við höfum gert,“ sagði hún eftir 1:0-sigur á Sviss í lokaumferð keppninnar.
Spurning með tvær
Vorið hefur verið vandkvæðum háð fyrir Grainger þar sem meiðsli hafa gert liðsval hennar erfiðara. Flestir leikmannanna virðast hins vegar hafa náð að jafna sig í tæka tíð fyrir mótið og lék einungis vafi á því hvort Mathilde Harviken og Guro Bergsvand, byrjunarliðsmiðverðir liðsins, væru fyllilega klárar í slaginn. Bergsvand náði því ekki.
Þjálfarinn
Gemma Grainger byrjaði fullkomlega með tveimur sigrum og samanlagðri 8:0-markatölu gegn Króatíu í umspili Þjóðadeildarinnar á síðasta ári. Hún er 42 ára gömul og kemur frá Leeds og segist sjálf vera knattspyrnuóð, þar sem hún eyði flestum vökustundum horfandi á eða hugsandi um knattspyrnu.
Hún hefur verið knattspyrnuþjálfari í yfir tvo áratugi; allt frá 19 ára aldri hefur hún helgað sig starfinu þar sem hin þýska Silvia Neid, fyrrverandi leikmaður og landsliðsþjálfari, er hennar helsta fyrirmynd.
„Hún er sigursælasti kvenþjálfari sögunnar og hefur haft raunveruleg áhrif á það hvernig þjálfari ég er í dag,“ hefur Gemma sagt.
Líklegt byrjunarlið
4-2-3-1: Cecilie Fiskerstrand – Thea Bjelde, Mathilde Harviken, Maren Mjelde, Tuva Hansen – Vilde Bøe Risa, Ingrid Syrstad Engen – Frida Maanum, Caroline Graham Hansen, Guro Reiten – Ada Hegerberg.
Norska úrvalsdeildin
Yfir 73.000 konur og stúlkur eru skráðar sem knattspyrnukonur í Noregi og er um að ræða vinsælustu íþróttina á meðal kvenna í Noregi. Fjölmiðlaumfjöllun eykst stöðugt og rétthafarnir TV 2 eru með umfjöllun um allar 27 umferðirnar í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Deildin er ennþá hálfatvinnumannadeild þar sem Vålerenga, Brann, Rosenborg og Lilleström eru með mikla yfirburði bæði innan og utan vallar. Jákvætt er að félög í næstefstu deild hafa aukið fjárútlát til kvennaliða sinna og eru á uppleið.
Raunhæft markmið
Liðið stefnir að því að vinna riðilinn og ætti að gera það. Ef liðið nær að forðast Spán í átta liða úrslitum gætum við séð Noreg í undanúrslitum EM á ný, í fyrsta sinn í tólf ár.
Noregur
og Ísland
• Liðin mætast fimmtudaginn 10. júlí klukkan 19.00 að íslenskum tíma á Arena Thun í borginni Thun.
• Ísland og Noregur hafa mæst 17 sinnum. Noregur hefur unnið níu leiki og Ísland þrjá en fimm leikir hafa endað með jafntefli.
• Markatalan er 33:20, Noregi í hag.
• Ísland náði óvæntu jafntefli gegn Noregi á útivelli, 2:2, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM árið 1982.
• Liðin skildu tvisvar jöfn í Þjóðadeildinni í vor, 0:0 á Þróttarvellinum og 1:1 í Þrándheimi.
• Þjóðirnar gerðu jafntefli, 1:1, á EM 2013 í Svíþjóð. Ísland vann Noreg 3:1 á Laugardalsvellinum í undankeppni mótsins 2011.
• Noregur er í 16. sæti á heimslista FIFA, 10. sæti í Evrópu, tveimur sætum á eftir Íslandi.