Natalia Kuikka hefur verið valin besta knattspyrnukona Finnlands fimm sinnum. Hún mun að öllum líkindum spila sinn 100. landsleik á EM í Sviss. Hún er tæplega þrítug og hefur mest látið ljós sitt skína í Bandaríkjunum á ferlinum. Fyrst varð hún landsmeistari í háskóla og var tilnefnd sem besti leikmaðurinn. Síðar varð hún fyrsti finnski leikmaðurinn til að vinna bandarísku NWSL-deildina, með Portland Thorns árið 2022.
Á einum tímapunkti íhugaði hún alvarlega að flytja aftur til Evrópu en ákvað að gera það ekki. „Mér fannst ég bara ekki þurfa þess. Ég þurfti ekki að sýna neinum nokkurn skapaðan hlut. Þetta er ferillinn minn og lífið mitt,“ sagði hún í viðtali við Yle í janúar 2025. Kuikka er yfirvegaður varnarmaður, líkamlega sterk og spretthörð og algjör lykilmaður finnska liðsins.