Kvikmyndin O (Hringur) í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni IFF Art Film festival í Košice sem fór fram í síðustu viku. Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni en framleiðandi hennar er Heather Millard.
Í fréttatilkynningu er haft eftir dómnefnd: „Sönn og fíngerð myndin rífur úr manni hjartað er hún sýnir hráleika fíknar. Meistaralega gerð.“ Í tilkynningu segir sömuleiðis að myndin sé „ljóðræn frásögn af manni sem vill standa sig en hans helsta hindrun er hann sjálfur“. Eru þetta tólftu verðlaun myndarinnar og er hún einnig komin í forval Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2025 sem og í forval til Óskarsverðlaunanna 2026. Hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum síðasta haust.