Gísli Rúnar Konráðsson, einn helsti forsvarsmaður Gangnamannafélags Austurdals í Skagafirði, gekk nýverið frá Skatastöðum fram á Hildarsel í Austurdal og samdægurs sömu leið til baka. Hann hreinsaði vatnsból og dreifði áburði á hestahólf

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Gísli Rúnar Konráðsson, einn helsti forsvarsmaður Gangnamannafélags Austurdals í Skagafirði, gekk nýverið frá Skatastöðum fram á Hildarsel í Austurdal og samdægurs sömu leið til baka. Hann hreinsaði vatnsból og dreifði áburði á hestahólf. Fór út með dýnur, viðraði þær og bankaði, dustaði teppi og sópaði rúmbotna. Þar kenndi ýmissa grasa auk neftóbaks í haugum. Sópaði húsið hátt og lágt og kannaði loks gas- og klósettpappírsbirgðir. Gísli orti:

Enn til fjalla arka skal,

andans létta byrði.

Hvert andartak í Austurdal

er innstu sælu virði.

Fréttir af „neftóbaki í haugum“ hreyfðu við Sigurði Hansen á Kringlumýri, sem smalað hefur dalinn góða áratugum saman og oftlega gist á Hildarseli.

Talandi um tóbakið

sem tapaðist undir dýnu.

Gæti ég þurft að gangast við

í gangnarúmi mínu.

Og kvaddi með sígildum hætti gangnamanna í dalnum: Skál dalsins! Gísli Rúnar svaraði að bragði:

Það dreifðist vel um fletin flest,

fannst og víðar inni.

En ef til vill var einna mest

undir dýnu þinni.

Jón Gissurarson í Víðimýrarseli spurði að lokum:

Í Hildarseli höfðingjar

heilsudrykki blanda.

Fannstu engan fullan þar

fleyg af Keldulanda?

Magnús Halldórsson bregður á leik í limru:

Hún Sigríður þekkti' ekki sérann

og sá hann því aldrei víst beran.

Uns hann tók bað,

og hún sá það.

En þá fór hún líka að þér'ann.

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson beitir einnig limruforminu fyrir sig:

Hin útsmogna griðka á Grindli

glotti að húsbóndans svindli

sem tendraði eld

hvert einasta kveld

en ekkert samt rauk úr hans vindli.

Að síðustu vísa eftir Pétur Stefánsson:

Ég hef farið vítt um veg,

veifað geði hressu.

Um það vísu orti ég

óvart rétt í þessu.