Ásgeir Þór Árnason
Það sem hófst sem uppbygging við Álfabakka 2a, b, c og d átti að efla hverfið en margir íbúar upplifa í dag að þeir hafi verið dregnir aftur í skuggann – bókstaflega og táknrænt.
Frá árinu 2022 hefur málið verið í deiglunni. Reykjavíkurborg samþykkti breytingar á deiliskipulagi sem leiddu síðar til byggingar gluggalausrar norðurhliðar sem gnæfir nú yfir nærliggjandi hús. Íbúar lýstu yfir áhyggjum en telja þær ekki hafa verið teknar alvarlega. „Skilmálarnir voru óskýrir og forsendurnar brustu,“ sagði félagið Búseti í bréfi til borgarinnar í desember 2024.
Árið 2023 var starfsemi, þar á meðal kjötvinnsla, formlega samþykkt af skipulagsfulltrúa. Leigutakinn, Hagar, sagðist hafa fylgt öllum reglum en lýsti jafnframt vantrausti á framkvæmdarferlið.
Í janúar 2025 samþykkti borgarstjórn að fara í stjórnsýsluúttekt. Flokkur fólksins kallaði framkvæmdina „mesta skipulagsslys meirihlutans“. Borgarstjóri,
Heiða Björg Hilmisdóttir, sagði í Morgunblaðinu 23. maí að „kjötvinnslan sé ekki Reykjavíkurborg til sóma“ og að „mistök á borð við græna gímaldið megi ekki endurtaka sig“.
Málið er nú til meðferðar hjá Umboðsmanni Alþingis, m.a. vegna breyttrar fundargerðar og mögulegrar brotastarfsemi innan stjórnsýslunnar. Það eitt sýnir hve mjög traust hefur rofnað.
Í þessari sögu er ekki bara fjallað um einn vegg – heldur um ábyrgð, gagnsæi og framtíðarsýn borgar. Því ef borgarþróun snýst ekki um fólk, þá er spurningin sú: Hverjum þjónar hún?
Höfundur er íbúi í Árskógum 7.