Finnland
Ari Virtanen
Ilta-Sanomat
Finnland lék mjög vel í undankeppninni fyrir EM 2025 og vann Skotland 2:0 samanlagt í umspilinu, sem varð til þess að frammistaðan jók væntingar.
Eftir það fylgdi hins vegar keppni í Þjóðadeildinni sem var sem köld vatnsgusa í andlit Finna. Jafntefli á heimavelli gegn Serbíu, eftir að hafa fengið á sig sjálfsmark á 84. mínútu, varð til þess að liðið hafnaði í öðru sæti í riðli sínum á eftir serbneska liðinu.
Ástæðuna fyrir versnandi frammistöðu má að mestu rekja til þeirra fjölda meiðsla sem liðið hefur þurft að glíma við í aðdraganda Evrópumótsins. Lykilmenn á við Nataliu Kuikka, Elli Pikkujämsä og Juttu Rantala hafa verið lengi frá.
Kuikka, sem er einn mikilvægasti leikmaður liðsins, er byrjuð að spila aftur en er búin að missa af margra mánaða undirbúningi. Elli Pikkujämsä, sem er einn áreiðanlegasti varnarmaður liðsins, hefur verið frá í eitt ár vegna hnémeiðsla.
Hættuminni án Rantala
„Við fylgjumst stöðugt með leikformi og heilsu leikmanna. Það er ljóst að við getum ekki valið of marga leikmenn [í lokahópinn] sem eru í óljósu líkamlegu ásigkomulagi,“ sagði landsliðsþjálfarinn Marko Saloranta eftir leikinn gegn Serbíu.
Í sókninni er Rantala lykilmaður. Framherji Leicester hefur verið frá keppni síðan í október og Finnland lítur einfaldlega ekki út fyrir að vera jafn hættulegt án hennar.
Þindarlausir bakverðir
Sem lið hefur Finnland náð að þróa leik sinn undanfarin tvö ár undir handleiðslu Saloranta. Liðið sækir á fjölbreyttan hátt og heldur andstæðingum sínum þannig á tánum, getur haldið boltanum vel með tígulmiðju og reiðir sig á þindarlausa bakverði sína sem taka gjarna hlaup lengst inn á vallarhelming andstæðingsins og skila einnig mörkum.
Góður árangur liðsins undanfarin ár byggist á agaðri frammistöðu og góðri nýtingu fyrir framan markið.
Þjálfarinn
Marko Saloranta, hinn 53 ára gamli landsliðsþjálfari, hefur átt lykilþátt í uppbyggingu kvennaknattspyrnu í Finnlandi undanfarin 20 ár. Hann hefur hins vegar þurft að gjalda vinnu sína dýru verði þar sem hann opinberaði að hann hefði gengið í gegnum skilnað í undankeppninni.
„Það eru kostir og gallar við öll störf,“ sagði hann. „Ég get tekist á við streitu og gagnrýni en það er lýjandi að hafa ekki nægan tíma til þess að vera með ástvinum sínum.“
Saloranta hefur unnið fyrir Knattspyrnusamband Finnlands í yfir 15 ár og var þjálfari U17-ára landsliðs kvenna þegar það komst á EM 2018 og HM ári síðar.
Líklegt byrjunarlið
(4-4-2-tígulmiðja) Tinja-Riikka Korpela – Emma Koivisto, Natalia Kuikka, Eva Nyström, Joanna Tynnilä – Eveliina Summanen, Oona Siren, Nea Lehtola, Ria Öling – Linda Sällström, Sanni Franssi.
Finnska úrvalsdeildin
Segja má að finnska úrvalsdeildin einkennist af hálfri atvinnumennsku en í reynd er enn um áhugamannadeild að ræða. Á síðasta ári léku 245 leikmenn í deildinni og 70 prósent þeirra töldust til áhugamanna.
Þriðjungur leikmanna voru „atvinnumenn“ með samninga sem tryggðu þeim einhverjar greiðslur en einungis tíu leikmenn voru alvöruatvinnumenn í orðsins fyllstu merkingu, með tryggingar og fleira.
Árið 2024 var meðaláhorfendafjöldi 357. Fjölmiðlaumfjöllun um deildina er satt að segja ansi góð og hverjum einasta leik streymt hjá stórum fjölmiðli.
Raunhæft markmið
Með það í huga hversu vel Finnland hefur staðið sig gegn betri liðum í undankeppninni er eðlilegt að ætlast til þess að liðið komist áfram í útsláttarkeppnina. Það væri gott afrek fyrir lið sem hefur þurft að glíma við meiðsli lykilmanna á þessu ári.
Finnland
og Ísland
• Liðin mætast miðvikudaginn 2. júlí (í dag) klukkan 16.00 að íslenskum tíma á Arena Thun í borginni Thun.
• Ísland og Finnland hafa mæst 10 sinnum. Finnland hefur unnið fjóra leiki, Ísland þrjá og þrír hafa endað með jafntefli.
• Markatalan er 11:10, Finnum í hag.
• Finnland vann fyrstu tvo leikina í undankeppni EM árið 1983, 2:0 á Kópavogsvelli og 3:0 í Finnlandi.
• Ísland vann Finnland 3:0 í Algarve-bikarnum 2008 en hinir sjö leikirnir hafa verið vináttulandsleikir.
• Finnar unnu síðustu viðureign þjóðanna, 2:1, en það var vináttulandsleikur á Laugardalsvellinum í júlí 2023.
• Finnland er í 26. sæti heimslista FIFA og í 17. sæti Evrópuþjóða.