Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Ofurálag var í innlögnum á Landspítalann allan síðari hluta síðasta árs og var staðan á bráðamóttökunni þannig í fyrra að 65 sjúklingar lágu þar inni að meðaltali, en sjúkrarúmin voru einungis 42 talsins. Nýting rúmanna var þ.a.l. 154%. Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Landspítalans sem kynnt var í gær.
Þar kemur einnig fram að stöðugildi sem skipti hundruðum hafi verið ómönnuð á spítalanum, en fjárhagsáætlun gerði þó ráð fyrir mönnun þeirra. Þannig voru 379 stöðugildi sjúkraliða ómönnuð á síðasta ári, 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, 30 stöðugildi lækna og 14 stöðugildi ljósmæðra.
Skortur hefur neikvæð áhrif
Hefur skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum haft neikvæð áhrif á afköst á spítalanum og þá er og sagt að skortur á sjúkraliðum sé áhyggjuefni. Nýliðun fólks í þeirri starfsstétt hefur verið mun hægari en hjá læknum og hjúkrunarfræðingum og einnig veldur það áhyggjum hve meðalaldur í stétt sjúkraliða er hár.
Telur Ríkisendurskoðun að heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn þurfi að leita leiða til þess að mönnun spítalans til framtíðar verði tryggð, m.a. með því að styðja við uppbyggingu sérnáms og þá ekki síst í þeim greinum heilbrigðisvísinda þar sem mest mæðir á, samhliða öldrun þjóðarinnar. Framboð á sérnámi hefur þó aukist verulega hér á landi og hefur læknum sem leggja stund á sérnám hér fjölgað hin síðari ár.
Í skýrslunni er vakin athygli á vandamálum sem lútað að flæði sjúklinga. Þau viðmið sem landlæknir styðst við kveða á um að ekki skuli líða lengri tími en sex klukkustundir frá því sjúklingur kemur á bráðamóttöku þar til hann er lagður inn á spítalann. Í fyrra var raunin sú að það markið náðist í innan við fjórðungi tilvika og meðaltíminn reyndist vera rúmur sólarhringur.
Mikil óvissa
Einn stærsti áhrifaþátturinn þegar kemur að flæði sjúklinga segir Ríkisendurskoðun vera þann fjölda sem dvelur á spílanum á meðan hann bíður eftir vist á hjúkrunarheimili.
Hafa 80 slíkir sjúklingar að meðaltali legið inni á spítalanum hverju sinni og gefur það ástand varað allt frá árinu 2020. Þetta nemur um 12% af heildarfjölda sjúklinga spítalans. Segir Ríkisendurskoðun að heilbrigðisráðuneytið hafi vonast til þess að hjúkrunarrýmum fjölgaði verulega á næstu þremur árum, en Ríkisendurskoðun telur það vera mikilli óvissu háð. Árið 2019 lagði heilbrigðisráðuneytið upp með að í lok síðasta árs yrðu hjúkrunarrými orðin ríflega 3.400 og bið eftir slíku rými ekki lengri en 90 dagar. Þetta segir Ríkisendurskoðun ekki hafa gengið eftir. Hjúkrunarrýmin séu tæplega 460 færri en lagt var upp með og meðalbiðtími 176 dagar, nær tvöfalt meiri en að var stefnt. 500 manns eru nú á biðlistum