Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is
Ein af stærstu ferðahelgum ársins er núna um helgina og verður nóg um að vera um allt land. Nokkrar fjölsóttar útihátíðir verða haldnar en á meðal hátíða sem fólk getur sótt eru Írskir dagar á Akranesi, Bæjarhátíð Bíldudals, Allt í blóma í Hveragerði og Goslokahátíðin í Vestmannaeyjum.
Fjölbreytt dagskrá verður í boði á öllum þessum hátíðum þar sem ungir sem aldnir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Fjöldi tónlistarmanna kemur fram, til dæmis Aron Can, Bríet, Friðrik Dór og VÆB. Ýmsir skemmtikraftar munu einnig stíga á svið um landið og skemmta gestum.
Þá leggja vaskir fótboltadrengir leið sína til Akureyrar þar sem N1-fótboltamótið verður haldið en mótið hófst formlega í gær og stendur yfir fram á laugardag. Síðustu ár hafa yfir þúsund drengir tekið þátt á mótinu og má því búast við töluverðum fjölda í bænum.
Á laugardaginn ætla þríþrautakappar landsins að spreyta sig í Laugarvatnsþríþrautinni þar sem keppt verður í ólympískri þríþraut en þríþrautarfélagið Ægir3 stendur fyrir keppninni.
Veðrið virðist ætla að leika við landann en mildu og góðu veðri er spáð um nær allt land.