Sívinsæll Bubbi Morthens hefur verið einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar í meira en 40 ár.
Sívinsæll Bubbi Morthens hefur verið einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar í meira en 40 ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gervigreindin er enn eitt höggið á skapandi listgreinar, að mati Bubba Morthens, tónlistarmanns og skálds. Þetta segir hann í kjölfar fréttar í Morgunblaðinu í gær um vinsælu hljómsveitina The Velvet Sundown, en það kom nýverið í ljós að…

Björn Diljan Hálfdanarson

bdh@mbl.is

Gervigreindin er enn eitt höggið á skapandi listgreinar, að mati Bubba Morthens, tónlistarmanns og skálds.

Þetta segir hann í kjölfar fréttar í Morgunblaðinu í gær um vinsælu hljómsveitina The Velvet Sundown, en það kom nýverið í ljós að hljómsveitin var aldrei til og að öll lög sveitarinnar eru sköpunarverk gervigreindar. Sveitin er með hálfa milljón hlustenda á mánuði á streymisveitunni Spotify og þúsundir fylgjenda. Þá hefur hún „gefið út“ tvær plötur og sú þriðja kemur út síðar í mánuðinum.

Mjög vondar fréttir

„Þetta eru hamfarir fyrir skapandi listamenn og tónlistarmenn,“ segir Bubbi í samtali við Morgunblaðið. „Þessi frétt sendir hroll niður eftir mænunni og vekur manni ugg í brjósti, þetta eru mjög vondar fréttir,“ bætir hann við.

Bubbi segir fólk of meðvirkt í garð gervigreindarinnar og lítur áhyggjufullur til framtíðar. „Mín reynsla í þessum efnum er að þetta bara versnar jafnt og þétt,“ segir Bubbi og bætir við að réttindi listamanna séu fótum troðin. Hann undirstrikar þó að ekkert toppi alvöru tónlistarmenn sem semja og flytja eigin lög. „Fólk kemur til að sjá okkur syngja og spila live og heyra röddina án þess að hún sé bökkuð upp með einhverjum græjum, það er enn þá eftirsóknarvert og engin gervigreind getur toppað það,“ segir Bubbi.

Ný tækni er sífellt að ryðja sér til rúms á tónlistarsviðinu og margir velta því fyrir sér hvort gervigreindin sé hluti af þeirri þróun. Bubbi heldur enn þá fast í gamlar hefðir í breyttum heimi.

„Ég er oftar en ekki einn með gítar og munnhörpu á sviði. Ég er að verða forneskja, ég er að verða risaeðla, ég er eins og lífrænn lifandi steingervingur,“ segir Bubbi og veltir því fyrir sér hvort tónlistarmenn sem spila á tónleikum verði nokkurs konar sirkusdýr framtíðarinnar.

Öld lagleysingjans

Bubbi segir að með þessari nýju tækni sé komið að öld lagleysingjans. „Manneskjan þarf ekki lengur að geta sungið, þeir sem eru laglausir gleypa bara „autotuner“ og stíga á svið en án hans geta þeir ekkert sungið. Nú getur hver sem er farið í tölvuna sína og hlaðið einhverju drasli niður og kallað sig listamann,“ segir hann. „Ég segi bara eins og Bob Dylan, Bruce Springsteen og Neil Young: „Get me out of here!““ segir hann í lokin og hlær.

Gervigreind í tónlist

Stórhættuleg þróun

Bregðast þarf við þróun gervigreindar í tónlist sem allra fyrst, segir Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna. „Þarna er verið að spila stórhættulegan leik,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Á dögunum var haldin ráðstefna alþjóðaverkalýðssamtaka hljómlistarmanna þar sem gervigreindin var mikið rædd. „Þetta er ekki auðveldur slagur og það voru allir á ráðstefnunni sammála um að það þyrfti að bregðast við ógnarhratt og skipulagt,“ segir Gunnar.

Höf.: Björn Diljan Hálfdanarson