Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í skóla- og frístundaráði, segir það leitt að upplýsingaflæði borgarinnar varðandi lokun starfsstöðvar Brúarskóla á BUGL hafi ekki verið betra

Diljá Valdimarsdóttir

dilja@mbl.is

Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í skóla- og frístundaráði, segir það leitt að upplýsingaflæði borgarinnar varðandi lokun starfsstöðvar Brúarskóla á BUGL hafi ekki verið betra. Segir hann of algengt í erfiðum málaflokkum að upplýsingaflæðið sé ekki nógu skilvirkt.

Reykjavíkurborg hefur lokað starfsstöð Brúarskóla á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) en ítrekar að ekki sé um þjónustuskerðingu að ræða heldur endurskipulagningu. Tillagan um lokun starfsstöðvarinnar kemur fyrst fyrir í frumvarpi um fjárhagsáætlun borgarinnar í borgarráði 31. október í fyrra og var svo afgreidd í borgarstjórn í samþykkt um fjárhagsáætlanir 3. desember.

Heimildir Morgunblaðsins herma að Landspítali hafi fengið veður af lokuninni síðastliðinn föstudag. Var það vegna ábendingar til borgarinnar frá kennara við Brúarskóla. Ekki var haft samráð við Landspítala um ákvörðun borgarinnar um að loka starfsstöðinni.

Skóla- og frístundasvið mun áfram bera ábyrgð á kennslu þeirra barna sem fá þjónustuna og þurfa vegna heilsu sinnar sjúkrakennslu. Heimaskólar barna sem eru inniliggjandi á BUGL taka við kennslunni af Brúarskóla. Breytingin í Brúarskóla var hluti af mörgum aðgerðum sem ræddar voru í tengslum við fjárhagsáætlunargerð.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og fyrrverandi formaður skóla- og frístundaráðs, segir að ákvörðunin um lokunina byggist á samstillingu og skilvirkni starfsins.

„Það er náttúrulega þannig að borgin er með þjónustusamninga við hin sveitarfélögin. Þegar við vorum að gera fjárhagsáætlunina var grunnurinn sá að nýta þessa þjónustusamninga. Ekki átti að fara í uppsagnir eða annað. Þetta var bara mál sem þurfti að fara í vinnslu í gegnum samninga og svo framvegis,“ segir Árelía í samtali við Morgunblaðið.

Viðkvæmur hópur í forgangi

Árelía segir þetta vera viðkvæman hóp og að borgin setji það í forgang að það verði engin þjónustuskerðing við þessi börn. Segir hún að þjónustan verði sniðin að hverju og einu barni en ferlið þurfi að vera skilvirkt.

„Það er hins vegar eðlilegt að það sé farið yfir og reynt að samstilla alla samninga sem lúta að svona flóknu samstarfi. […] Þessar ákvarðanir eru teknar til að gera þjónustuna við börnin skilvirkari.“

Höf.: Diljá Valdimarsdóttir