Ragnheiður Torfadóttir fæddist 13. september 1952. Hún lést 12. júní 2025.
Foreldrar Ragnheiðar voru Vera Pálsdóttir, f. 12. janúar 1919, d. 27. janúar 2014, og Torfi Ásgeirsson, f. 11. mars 1908, d. 31. janúar 2003.
Systkini Ragnheiðar eru Ásgeir Torfason, f. 31. október 1941, Anna Kristjana Torfadóttir, f. 25. janúar 1949, d. 30. nóvember 2012, og Ólafur Torfason, f. 14. maí 1951.
Ragnheiður giftist Stefáni Eiríkssyni en þau skildu. Sonur þeirra er Stefán Davíð Stefánsson, f. 12. febrúar 1987.
Útför er frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 3. júlí 2025, kl. 13.
Það var fallegt um að lítast í Skjólunum laugardagsmorgun fyrir margt löngu. Sjófuglarnir spókuðu sig í fjörunni og lágvært öldugjálfur barst frá sjónum.
Ung kona með krúttlegan snáða í regnhlífakerru stóð fyrir framan rauða húsið í götunni. Hún heilsaði mér, „Ert þú ekki Oktavía vinkona Óla bróður?“ Ég kinkaði kolli og virti konuna fyrir mér, sem sagðist heita Ragnheiður. Þetta er Stefán Davíð, bætti hún við brosandi þegar drengurinn með lokkaflóðið rumskaði.
Ragnheiður minnti helst á ítalska leikkonu á leið í tökur. Dökkbrúnt þykkt hár skreytt fallegri hárspöng og Hermés-silkiklúturinn var á sínum stað. Dökkgrár prjónakjóll sást undan svörtum frakkanum. Mér fannst ég hálfhallærisleg við hliðina á henni – svolítið eins og ég kæmi beint úr kartöflugarðinum. Það skipti ekki máli heldur hitt að mér líkaði strax vel við Ragnheiði.
Amor hitti fyrir Ragnheiði og Stefán Eiríksson, sem gengu í hjónaband fyrir fjórum áratugum. Hamingjan lá í loftinu. Systkini hennar brostu góðlátlega þegar örverpið vitnaði áköf og oft í Stefán sinn í samræðum. Hún var auðvitað stolt af sínum manni.
Ragnheiður vann skrifstofustörf fyrstu hjónabandsárin. Hún var nánast alltaf með Stefán Davíð, hvert sem hún fór. Hún var smekkvís með næmt listrænt auga. Það kom vel fram við val á innréttingum og húsgögnum. Hún hefði eflaust orðið ágætis innanhússarkitekt.
Það var ákveðið áfall fyrir unga fjölskyldu að eignast fatlað barn. Foreldrarnir fóru í gegnum erfiða tíma. Þau hefðu þurft frekari faglegan stuðning. Það er ekki létt að styðja maka og vera sjálfur í sárum.
Ragnheiður var föst fyrir og treysti ekki hverjum sem var fyrir einkasyninum. Á unglingsárum Stefáns Davíðs kom til sögunnar Þröstur tilsjónarmaður, sem náði vel til Stefáns Davíðs. Ragnheiður var himinlifandi og talaði oft um hve heppin þau voru með Þröst og stuðninginn.
Í dag býr Stefán Davíð á sambýli fyrir fatlaða og vinnur á vernduðum vinnustað. Ragnheiður var í fyrstu ósátt við að Stefán Davíð færi á sambýli en sá fljótt að það vari það besta fyrir hann.
Ragnheiður átti á seinni árum við áfengissýki að stríða, sem hún vildi ekki heyra minnst á. Öllum sem þótti vænt um hana fannst sárt að geta ekki komið henni til aðstoðar. Hún var þrjósk og reyndi að hafa stjórn á fíkninni en missti hana að lokum. Hjónin skildu fyrir fjórum árum. Það var erfiður tími.
Ragnheiður var með stórt hjarta, gjafmild og ræktarsöm. Hún var vel að sér um menn og málefni. Það er gott að hugsa til þess að foreldrar Ragnheiðar, frú Vera og Torfi, ásamt Önnu Krist bíði eftir henni með útbreiddan faðminn.
Ragnheiður kvartaði aldrei, hún vildi ekki íþyngja neinum. Hún einangraði sig oft þegar henni leið illa. Fíknin breytti henni eins og öllum sem verða henni að bráð. Hún var ekki sama Ragnheiður og ég hitti í Skjólunum forðum daga. Elsku Ragnheiður, Ég enda þessi skrif á því að vitna í Stefán Davíð, gleðigjafann þinn sem sagði: „Nú er mamma hjá englunum.“
Oktavía Guðmundsdóttir.