Stjórnvöld í Úkraínu óskuðu í gær eftir því að Bandaríkjastjórn útskýrði ákvörðun sína eftir að Hvíta húsið tilkynnti óvænt um morguninn að hætt hefði verið við að senda skotfæri af ýmsu tagi til Úkraínuhers.
Talsmenn úkraínska varnarmálaráðuneytisins sögðu í gær að þeir hefðu ekki fengið neina tilkynningu um ákvörðunina en hún felur m.a. í sér að hætt verði við að senda Úkraínumönnum skotfæri fyrir stórskotalið og flaugar í loftvarnarkerfi sem Bandaríkjaþing hafði þegar samþykkt að veita þeim.
Úkraínska utanríkisráðuneytið kallaði í gær John Ginkel, aðstoðarsendiráðsstjóra Bandaríkjanna í Kænugarði, á teppið til þess að útskýra ákvörðunina og þær ástæður sem lágu þar að baki, og sagði í tilkynningu ráðuneytisins að þar hefði verið ítrekað að allar tafir á hernaðaraðstoð við Úkraínu væru einungis til þess fallnar að gefa Rússum aukinn styrk til þess að halda stríðsrekstri sínum áfram.
Þó að ríki Evrópu hafi stóraukið stuðning sinn við Úkraínu og Úkraínuher á síðustu mánuðum eru enn þó nokkur vopnakerfi í notkun sem kalla á bandarísk skotfæri. Sagði háttsettur embættismaður í Úkraínuher við AFP-fréttastofuna í gær að Úkraínumenn væru því enn verulega háðir stuðningi frá Bandaríkjunum. „Evrópa er að gera sitt besta, en þetta verður erfitt fyrir okkur án bandarískra skotfæra,“ sagði hann.
Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, fagnaði ákvörðun Bandaríkjastjórnar mjög í gær og sagði að hún myndi verða til þess að flýta fyrir endalokum „sérstöku hernaðaraðgerðarinnar“. Rússneskir embættismenn hafa gefið í skyn síðustu daga að stríðsmarkmið þeirra sé að innlima Úkraínu alla, á sama tíma og Rússaher hefur sett aukinn kraft í loftárásir sínar.