[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stuðningsmenn Donalds J. Trumps Bandaríkjaforseta eru margir hverjir orðnir spenntir fyrir nýja gullsímanum sem Trump-fjölskyldan hyggst setja á markað. Að því er fram hefur komið í bandarískum fjölmiðlum mun síminn kosta 499 bandaríkjadali eða sem svarar 60.500 krónum á núverandi gengi

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stuðningsmenn Donalds J. Trumps Bandaríkjaforseta eru margir hverjir orðnir spenntir fyrir nýja gullsímanum sem Trump-fjölskyldan hyggst setja á markað.

Að því er fram hefur komið í bandarískum fjölmiðlum mun síminn kosta 499 bandaríkjadali eða sem svarar 60.500 krónum á núverandi gengi. Þá verður mánaðargjaldið fyrir notkunina 47,45 dalir, sem vísar til þess að Trump var forseti númer 45 þegar hann var kosinn í fyrra skiptið en forseti númer 47 í það síðara.

Mikið verður innifalið en notendur munu m.a. geta hringt til yfir 100 landa ókeypis.

Donald Trump yngri hefur sagt Trump-símann, T1 Phone, efla öryggi notenda sem þurfi ekki að óttast að síminn verði með tækni sem geri erlendum ríkjum kleift að fara um „bakdyr“.

Rifjast þá upp varnaðarorð Mikes Pence, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna á fyrra kjörtímabili Trumps, í heimsókn til Íslands árið 2019. Pence varaði þá Íslendinga við notkun fjarskiptatækni frá kínverska tæknirisanum Huawei enda gæti slík tækni boðið upp á bakdyr til njósna.

Fyrst mátti skilja að Trump-síminn yrði framleiddur í Bandaríkjunum en það hefur verið dregið í efa.

Hjá Elko fengust þær upplýsingar að ekki liggi fyrir hvort Trump-síminn verði í boði í Evrópu. Ef hann verði í boði í Evrópu verði metið hvort hann verði tekinn í sölu.

Höf.: Baldur Arnarson