70 ára Árni Þór á ættir að rekja norður til Stranda, en ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík. „Þegar ég var 13 ára og nýkominn úr sveit ákvað ég að fara út á Melavöll og fara að æfa frjálsar íþróttir og gerði það

70 ára Árni Þór á ættir að rekja norður til Stranda, en ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík. „Þegar ég var 13 ára og nýkominn úr sveit ákvað ég að fara út á Melavöll og fara að æfa frjálsar íþróttir og gerði það. Ég byrjaði í spretthlaupum og endaði svo í kúlu og kringlu áður en ég færði mig yfir í lyftingar,“ segir hann.

„En ég sá fram á að þurfa að keppa við Hrein Halldórsson og Óskar Jakobsson, sem voru mjög framarlega, og fannst það heldur ójafn leikur, svo ég fór í lyftingar og það gekk mjög vel.“

Ári áður en Árni Þór fór í nám í arkitektúr til Árósa í Danmörku varð hann Norðurlandameistari í lyftingum í sínum þyngdarflokki, og hann segir að ástæðan fyrir því að hann valdi Danmörku hafi að hluta verið til að komast í betri æfingaaðstöðu. Í Danmörku bjó hann í átta og hálft ár. Hann kunni vel við Danina og eignaðist marga vini, meira á æfingunum en í skólanum.

Þegar Árni Þór kom heim fór hann að vinna sem arkitekt hjá Bárði Daníelssyni, en vann síðan sjálfstætt í rúmlega 30 ár.

Árni Þór segir að helstu áhugamálin í dag séu veiðar, bæði stangveiði og skotveiði, en hann var um tíma formaður Skotveiðifélags Reykjavíkur. „Við bræðurnir fórum samfellt í 30 ár upp á hálendi að skjóta heiðagæs og vorum eiginlega frumkvöðlar í þeim veiðum,“ segir hann og bætir við að áhuginn á skotfimi sé alltaf mikill.

„Síðan hef ég aldrei slitið mig alveg frá hreyfingunni, og er ennþá að lyfta hérna heima.“

Árni er langt frá því að setjast í helgan stein. „Ég vinn í dag sem verktaki hjá sjálfum mér, og er að vinna mikið fyrir Loftorku.“

Fjölskylda Eiginkona Árna Þórs er Kristín Sveinsdóttir og þau búa í Hafnarfirði.