Brynjar Hansson fæddist 12. júní 1943 í Ólafsvík. Hann lést 18. júní 2025 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Foreldrar hans voru Hans Sigurberg Danelíusson og Sólveig Björndís Guðmundsdóttir. Systkini hans eru Stúlka Hansdóttir, Sveindís Rósa, Einar, Sigurhans, Bára, Ingveldur og Sævar sem eru látin. Eftirlifandi systkin eru Sumarrós Fjóla, Vigdís og Danelíus Ármann.
Eiginkona Brynjars var Rut Lárusdóttir, f. 4. ágúst 1944, d. 22. ágúst 2005. Börn þeirra hjóna eru 1) Guðrún Lára, maki Skúli Rósantsson, börn þeirra Rut, Rósant Friðrik og Soffía Rún. 2) Sólveig Hanna, maki Helgi Valur, börn þeirra Gunnar Valur og Brynjar Geir. 3) Eiður Gils, maki Sólveig Rós, börn þeirra Rut Páldís, Brynjar Eysteinn og Móey Lára, og langafabörnin orðin sex talsins.
Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 3. júlí 2025, klukkan 13.
Kær vinur og æskufélagi til hartnær 70 ára er fallinn frá. Stríð hans við illvígan sjúkdóm hefur staðið í nokkur ár. Það var ljóst að hverju stefndi, hann tókst á við sjúkdóminn af æðruleysi, ró og yfirvegun.
Við hjónin náðum að kveðja hann þremur dögum fyrir andlátið, það var mikið dregið af honum, við áttum gott samtal og minntumst gamalla tíma. Ég undrast hvað hann var með allt á hreinu og gott minni.
Báðir ólumst við upp í Keflavík, miklum útgerðarbæ og í næsta nágrenni við flugvöllinn. Frá fermingu vorum við mestu mátar í leik og við störf. Sóttum vinnu hvar sem hana var að fá, bæjarvinnu, uppskipun og allt sem til féll.
Sumarið 1958 fórum við sem hálfdrættingar til síldveiða á mótorbátnum Nonna frá Keflavík, báðir vorum við 14 ára við upphaf veiða. Snemma beygðist krókurinn.
Brynjar giftist æskuástinni sinni henni Rut Lárusdóttur, við áttum sama afmælisdag, 4. ágúst. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn. Elst er Guðrún Lára, síðan Sólveig Hanna og Eiður Gils er yngstur.
Rut hvarf frá okkur allt of snemma, andaðist 22.ágúst 2005, 61 árs að aldri. Nú eru þau okkur horfin á braut og við yljum okkur við minningarnar. Þau voru einstaklega samrýnd hjón, höfðu yndi af söng, söngelsk bæði og kunnu ógrynni af lögum.
Það var víða farið, tjaldútilegur, veiðiferðir og margar stundir áttum við saman í sumarbústað þeirra við Eystra Gíslhólsvatn.
Við hjónin kveðjum þig kæri vinur með þessu saknaðarljóði, eftir ókunnan höfund.
En komin eru leiðarlok
og lífsins kerti brunnið
og þín er liðin æviönn,
á enda skeiðið runnið.
Í hugann kemur minning mörg
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.
Þín vinartryggð var traust og föst
og tengd því sanna og góða
og djúpa hjartahlýju og ást
þú hafðir fram að bjóða.
Og hjá þér oft var heillastund,
við hryggð varst aldrei kenndur.
Þú komst með gleðigull í mund
og gafst á báðar hendur.
Svo, vinur kæri, vertu sæll,
nú vegir skilja að sinni.
Þín gæta máttug verndarvöld
á vegferð nýrri þinni.
Með heitu bljúgu þeli þér
ég þakka kynninguna,
um göfugan og góðan dreng
ég geymi minninguna.
Valgerður og Baldur.
Látinn er Brynjar Hansson, skólabróðir minn og nágranni. Þegar farið er yfir liðna tíð er oft tilviljunarkennt hvaða fólk maður umgengst mikið í lífinu. Við Brynjar vorum bekkjarsystkini bæði í barnaskóla og gagnfræðaskóla. Síðan vildi þannig til að hann og Rut kona hans fengu lóð á Faxabraut 67 en við hjónin við Baugholt þar sem lóðirnar lágu saman. Eldri dætur okkar voru jafngamlar og nánar vinkonur og þær yngri líka, þannig að samgangur á milli heimilanna var mikill og góður. Rut var yndisleg kona sem lést á besta aldri. Brynjar hafði ákveðnar skoðanir og var viðræðugóður. Hann og Rut voru góðir nágrannar og vinir. Við fjölskyldan viljum þakka Brynjari fyrir liðna tíð og sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.
Hjördís G. Traustadóttir.