Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Líkur eru á að heildarafli strandveiðibáta á vertíðinni verði á bilinu 15-17 þúsund tonn af þorski, að því gefnu að veitt verði út ágúst eins og ætlunin er, skv. yfirlýsingum stjórnvalda. Þetta er mat Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda. Aflinn nú stendur í 8.445 tonnum af þorski og er aflaverðmætið að jafnaði um 500 krónur á kílóið, sem þýðir að verðmæti landaðs þorskafla er nú ríflega 4,2 milljarðar króna.
Auk framangreinds þorskafla hafa strandveiðibátarnir veitt tæp 33 tonn af gullkarfa og 251 tonn af ufsa og er verðmæti þess afla áætlað ríflega 54 milljónir samtals.
Fari svo að þorskafli strandveiðibáta verði á þeim slóðum sem Örn Pálsson telur að hann verði á má gera ráð fyrir að aflaverðmæti í þorski verði á bilinu 7,5-8,5 milljarðar í vertíðarlok.
„Ef ekki verður búið að samþykkja frumvarpið um strandveiðar sem liggur fyrir Alþingi verður að auka við veiðiheimildir til strandveiða svo unnt verði að standa við þau fyrirheit sem gefin voru,“ segir Örn, en haldi svo fram sem horfir með aflabrögð má ætla að 10 þúsund tonna markinu verði náð upp úr næstu helgi.
Spurður um hvaðan þær aflaheimildir eigi að koma segir Örn að ljóst sé að á undanförnum árum hafi vantað upp á að allar þær veiðiheimildir sem í boði hafi verið í upphafi árs hafi verið fullnýttar þegar fiskveiðiárið er gert upp.
„Það þarf ekki að taka þetta frá einum eða neinum, enda er strandveiðikerfið þannig að hægt er að bæta við heimildum í því. Það kerfi er ekki hlutdeildartengt eða tengt við aflamarkskerfið og ég hef aldrei áttað mig á því að það sé verið að taka þær heimildir af nokkrum manni,“ segir Örn.
Hann segist eiga von á góðum aflabrögðum í júlí, en kveðst halda að úr muni draga þegar kemur fram í ágúst.